Íbúafundir 2018

Í byrjun apríl 2018 voru haldnir sex opnir íbúafundir í sveitarfélögunum og má segja að um 400 manns samtals hafi komið að verkefninu á hinu ýmsu stigum. Ráðrík ehf. sá um framkvæmd fundanna og birtist hér samantekt þeirra af íbúafundum

ALMENNT

Fram komu áhyggjur af viðhorfum í samfélaginu, það vanti meiri jákvæðni og samstöðu. Það þurfi að tala svæðið upp en ekki niður og hampa því sem jákvætt er og vel gert. Tillaga kom fram um að halda sérstakt íbúaþing um þessi mál.

Einnig lýstu fundarmenn áhyggjum af fólksfækkun á svæðinu sem leiddi af sér minni tekjur, fábrotnara samfélag með minni og dýrari þjónustu. Áhrifa mundi gæta á fasteignaverð, rekstur fyrirtækja væri settur í hættu og hópíþróttir gætu þurrkast út. Það væri því mikilvægt að snúa þessari þróun við.

Margir voru þeirrar skoðunar að slagkraftur svæðisins mundi aukast ef sveitarfélögin fjögur sameinuðust og að stjórnsýslan yrði skilvirkari og vandaðri. Stutt var þó í óttann við hinn stærri og sterkari sem mundi soga allt til sín; ákvarðanavald, fólk og fjármagn.

SKÓLAMÁL

Skólamálin eru mörgum hugleikin. Almennt eru íbúar svæðisins ánægðir með skólana sína þó þeir telji að hægt sé að gera betur með aukinni samvinnu, hvort sem það verður við sameiningu eða með aukinni samvinnu. Skólarni séu ólíkir en það geti einmitt verið styrkur svæðisins. Kennarar séu vel menntaðir og þjónusta við nemendur almennt góð. Aðgengi að leikskóla sé gott og sums staðar taki hann við börnum strax að loknu fæðingarorlofi. Það sé styrkur að vera með fámenna skóla þar sem vel er haldið utanum nemendur en það sé líka ógn því fækkun nemenda geti leitt til þess að t.d. Húnavallaskóla verði lokað. Veikleikar í núverandi stöðu séu m.a. þeir að skólinn sé dýr pr. nemanda. Fámennið og fámennir árgangar sé líka veikleiki og börnin vanti meira félagaval.

Vangaveltur voru upp um rekstrarform skóla ef sameinað yrði, en leikskólinn á Skagaströnd er rekinn af Hjallastefnunni. Almennt voru umræður um skólamál líflegar og fram komu margar athyglisverðar hugmyndir um samvinnu skólanna, flæði á milli þeirra, aukin samkipti barnanna og samnýtingu kennara og fagfólks. Minnt var á að ýmiskonar tækni mun mögulega skapa nýja möguleika í kennslu á næstu árum með nýju kerfi fjarkennslu.

Fram kom að þó starfandi væri byggðasamlag um fræðslumálin væri skortur á framtíðarsýn í fræðslumálum svæðisins og að mikilvægt væri að sveitarfélögin móti sér sameiginlega skólastefnu sem tæki þá líka til tónlistarskóla.

ÍÞRÓTTA- OG ÆSKULÝÐSMÁL

Það eru tiltölulega fjölbreytt íþróttatækifæri m.v. stærð svæðis. Minni sveitarfélögin styðjast við hin fjölmennari og samvinna sé á milli íþróttafélaganna út í öll sveitarfélögin. Aðstaðan sé almennt góð og félögin vel styrkt. Tónlistarskólinn sé ódýr, öflugt kirkjustarf fyrir börn og unglinga, starf félagsmiðstöðva gefi krökkunum góð tækifæri og í skólum fái þau að taka þátt

í leiklist og fleiru. Ótti kom fram við það að ef sveitarfélögin yrðu sameinuð mundu minni fjármunir fara til þess sem nú er vel sinnt.

Það vantar þó afrekslið í íþróttum, þau vantar fyrirmyndir og æfingaplön eru flókin þegar miða þarf við stundatöflur þriggja skóla. Samgöngur þurfi líka að leysa. Það sé vandi að fá fagmenn til starfa og stundum þurfi að leita samstarfs bæði í austur og vestur til að geta sent krakka í keppni. Almenningssamgöngur eða frístundastrætó ofarlega í hugum margra.

Ef sameina eigi sveitarfélögin þurfi að samræma skóla- og frístundastarf fyrir öll börnin. Jöfn tækifæri fyrir öll börn verði skylda sveitarfélagsins. Börnin æfi saman og rekinn verði frístundabíll. Mótun framtíðarstefnu um samstarf í íþrótta- og æskulýðsmálum væri jákvæð, hvort sem sveitarfélögin verða sameinuð eða ekki.

ÍBÚALÝÐRÆÐI

Hátt hlutfall íbúa kemur að stjórn sveitarélaganna og aðgengi að kjörnum fulltrúum er talið gott. Einhvers staðar koma fram að það væru engir íbúafundir en þó einn á ári annars staðar. Íbúar telja að það mættu vera fleiri íbúafundir til að upplýsa um hvað er á döfinni og til að leita álits þeirra.

Einnig var bent á að nándin getur verið erfið, ,,allir eru skyldir öllum“. Fjölmennara sveitarfélag gefur örlítið meiri fjarlægð.

Hvernig á að ná til íbúa af erlendum uppruna? Það sé líka vandamál í sambandi við skólana. Heimasíður sveitarfélaganna þyrftu líka að hafa texta á pólsku og ensku. Það þyrfti að taka betur á móti innflytjendum t.d. með stuðningsfjölskyldum.

Ef sveitarfélögin yrðu sameinuð mundi nálægð við kjörna fulltrúa e.t.v. minnka. Ótti koma fram við það að í sameinuðu sveitarfélagi yrði mögulega stillt upp á lista út frá hagsmunum eins hluta svæðisins, en ekki út frá heildinni.

Mikilvægt er að sveitarfélögin eða nýtt sveitarfélag móti sér lýðræðisstefnu þar sem fram komi hvernig stjórnvöld hyggjast eiga samráð við íbúa og hvernig aðkoma þeirra getur verið.

GJALDSKRÁR

Ekki voru talin nein vandkvæði á því að samræma gjaldskrár.

FJÁRMÁL

Það er talinn styrkur svæðisins að sveitarfélögin eru vel rekin og skuldir hóflegar. Með sameiningu yrði betri nýting fjármuna og auðveldara að ná í peninga. Ef 5% sparast eru það 100 m.kr sem mikið er hægt að gera með. Heildarsýn og auðveldara að byggja upp. Jöfnunarstjóður kæmi með styrk við nýtt sveitarfélag.

Fólksfækkun er hinsvegar ógn. Það þarf að efla innviði og það kostar. Þeir svartsýnu telja ólíklegt að hagkvæmni næðist þó sveitarfélögin yrðu sameinuð og að fasti kostnaðurinn yrði ekkert minni.

FÉLAGSÞJÓNUSTA

Talið að gott væri að minnka flækjustigið og fá eina nefnd í stað byggðasamlags. Boðleiðir styttist. Þjónusta við aldraða talin góð þó sérhæft starfsfólk vanti. Einnig að fleiri úrræði vanti til að styrkja rekstur öldrunarþjónustu. Aldurspíramídinn bendir til þess að öldrunarþjónustan þyngist í náinni framtíð.

ATVINNUMÁL

Almennt virðist nokkuð mikil samstaða um það að slagkraftur svæðsins í atvinnumálum verði meiri við sameiningu sveitarfélaga. Byggðasamlag um atvinnu- og menningarmál er talið afar stirt apparat sem hafi alls ekki verið virkt og engu skilað. Slæmt að vera með togstreitu um hvar, í hvaða sveitarfélagi, atvinnustarfsemi á að vera. Barátta um störfin er talin hættuleg.

Styrkur í dag er lítið atvinnuleysi og svæðið er vel staðsett gagnvart landinu í heild og ekki á jarðskjálftasvæði. Fólk telur svæðið eiga mikið inni í ferðamálum og varðandi nýtingu orkunnar úr Blöndu. Samgöngur nokkuð góðar og hafnaraðstað góð á Skagaströnd sem og þjónusta við sjávarútveg. Ná þurfi ÍSTEX alveg til Blönduóss. Mikið er af opinberum störfum á svæðinu sem er styrkur. Eigi að síður er atvinnulíf talið einhæft, svæðið láglaunasvæði og samtakamáttinn vanti.

Ferðaþjónusta talin veik og þar vanti samstöðuna, það vanti samræmt skipulag. Um möguleika í ferðamálum var einkum vísað í Kjalveg, laxveiði, reiðleiðir í óbyggðum, að nýta landbúnaðinn s.s. Beint frá býli, Náðarstund, Kálfhamarsvík og golfvöll. Það er mikið gegnumstreymi fólks en vantar skýra segla sem stoppa ferðamenn.

Helstu ógnir varðandi atvinnumálin voru taldar t.d. að það vantaði íbúðir svo fólkinu geti fjölgað, það vantaði háskólamenntað fólk, margar jarðir væru í eigu efnaðra einstaklinga sem vilja loka þeim fyrir ágangi og stundi ekki búskap, það fjari líka undan landbúnaði vegna stjórnvaldsaðgerða og áhyggjur komu fram af framtíð afurðastöðvar á Blönduósi. Vegir séu víða í niðurníðslu og ef Húnavallaskóli verði lagður niður þá tapist 24 störf af því svæði ef ekkert annað kemur til.. ,,Háð er varnarbarátta og á meðan sækjum við ekki fram, vantar fólk, vantar íbúðir, vantar félagsauðinn“.

FJALLSKIL

Ólíklegt talið að sameinað sveitarfélag fari að breyta miklu um fyrirkomulag fjallskila þó gjaldtaka sé mismunandi í dag. Minnt á að lögin segi að ef sveitarfélög eru sameinuð þá skulu umdæmi fjallskiladeilda haldast óbreytt frá því sem áður gilti og upprekstrarréttur standa óbreyttur miðað við eldri skipan, nema um annað sé samið.

Fram koma samt áhyggjur af því að þéttbýlisbúar hafi lítinn skilning á girðingarmálum og eyðingu á ref og mink. Þar vanti reyndar samræmt verklag um allt land.

UMHVERFISMÁL

Umhverfismál eru stækkandi málaflokkur, líka varðandi sorpið. Það er talinn styrkur svæðisins að sorphirðan sé almennt í góðum málum. Þó vanti aukna flokkun á lífrænum úrgangi. Bílar sem koma með sorp á Sölvabakka fara tómir til baka, geta þeir ekki tekið lífrænt rusl frá sveitarfélögunum er spurt. Það þurfi að flokka meira og bjóða þurfi gáma til tiltektar og auka þyrfti opnun á gámahúsi.

Svæðið almennt talið hreint og þrifalegt. Búið sé að gera átak varðandi rotþrær en fráveituframkvæmdir á Skagaströnd geti orðið stór biti. Urðunarsvæðið á Sölvabakka talið lýti sem stækkar og stækkar.

Fram kom ótti við að þjónusta muni minnka og að allir verði sendir inn á Blönduós þar sem verði eitt gámasvæði.

STJÓRN SVEITARFÉLAGA

Fram kemur að alltaf verði verra og verra að fá fólk til að starfa í sveitarstjórn. Fólk fari í þetta af hugsjón til að vinna samfélaginu vel. Það sé mikil vinna að vera í sveitarstjórn í sjálfboðavinnu, en sumir sæki í þetta til að fá völd.

Kvartað undan því að það sé engin stefnumörkun, fólkið viti ekkert hvað er að gerast, sumstaðar séu aldrei íbúafundir og fámenni á skrifstofum þýði minni sérhæfingu og fagmennsku.

Og ótti kemur fram um að í sameinuðu sveitarfélagi fari allt á Blönduós.