Spurt og svarað

 • Hvernig verður nafn sameinaðs sveitarfélags ákveðið?

  Sveitarstjórn sameinaðs sveitarfélags ákveður nafnið ef sameining verður samþykkt. Algengt verklag er að kalla eftir tillögum að nöfnum, eiga samráð við Örnefnanefnd og leggja því næst tillögur til atkvæðagreiðslu meðal íbúa.

 • Ef af sameiningu verður, hvenær er áætlað að hún taki gildi?

  Eftir sveitarstjórnarkosningar sem fara fram 14. maí 2022. Gildistaka yrði um mánaðarmótin maí- júní 2022.

 • Munu sveitarstjórnarfulltrúar í sameinuðu sveitarfélagi verða fulltrúar fyrir alla íbúa, hvar sem þeir búa? Ber þeim skylda til að þjónusta og hugsa um hag allra íbúa?

  Sveitarstjórnarmönnum ber samkvæmt lögum að gæta að almennum hagsmunum íbúa sveitarfélagsins alls.

 • Húnavatnshreppur er landríkur. Er það rétt að til sé sjálfseignarfélag um upplönd hreppsins þ.e.a.s. heiðalöndin? Ef þetta er rétt rennur þá hugsanleg ur arður af samningum við Landsvirkjun vegna framkvæmda

  Það eru starfandi sjálfseignarstofnanir um nýtingu og veiðihlunnindi á afréttarlöndum sveitarfélaganna. Tilgangur þeirra er að tryggja að afréttarlöndin nýtist með sama hætti og verið hafði fyrir sameiningu sveitarfélaganan sem nú mynda Húnavatnshrepp. Arður af hlunnindum sjálfseignarstofnananna rennur til niðurgreiðslu á fjallskilakostnaði.

 • Er það tryggt að áformin í kynningunni verði í nýju sveitarfélagi?

  Framtíðarsýnin er byggð á samráði við marga aðila sem eykur líkurnar á að sátt sé um hana. Það er ekki tryggt að öll áform gangi eftir, það mun velta á vilja nýrrar sveitarstjórnar og fjármagni.

 • Hvað á að gera við félagsheimilin í Húnaveri og Dalsmynni ?

  Í framtíðarsýninni er ekki tekin afstaða til þess hvað verði um félagsheimilin.

 • Eru fleiri hugmyndir fyrir húsnæðið á Húnavöllum ef stofnun umhverfisakademíu gengur ekki upp?

  Umhverfisakademían er forgangsverkefni núna, en jafnframt eru mikil tækifæri í tengslum við ferðaþjónustu. Mannvirkin á Húnavöllum eru stór og bjóða upp fjölbreytta nýttingu. Eitt verkefni útilokar ekki annað.

 • Haldiði það virkilega að slagkrafturinn aukist i sambandi við vegi sveitarfélagsfelagsins?

  Reynslan sýnir að það er líklegt. Slagkraftur svæðisins hefur ekki verið mikill undanfarin ár og því líklegt að hann aukist.

 • Hvað verður þá um kennara sem starfa á húnavöllum?

  Þeir verða hluti af sameinuðum Blönduskóla og Húnavallaskóla á sömu forsendum aðrir starfsmenn.

 • Hvað sjá núverandi sveitarfélög fyrir sér varðandi félagsstarf eldri borgara í nýju sameinuðu sv. félagi?

  Með frístundaakstri má auka samgang milli starfsstöðva félagsstarfs aldraðra en félagsstarf verður áfram í báðum þéttbýlisstöðum. Akstur úr sveitum getur verið í tengslum við skóla- og frístundaakstur barna og unglinga. Sjá má fyrir sér að stofna dægradvöl fyrir eldri borgara í samstarfi við HSN en slíka þjónustu vantar hér í héraðið.

 • Hvað verður gert við félagsheimilin?

  Í framtíðarsýninni eru ekki tillögur um breytingar á fyrirkomulagi félagsheimila.

 • Hvaða forsendur liggja að baki 40-50 mkr. áætlaðri hagræðingu við sameiningu Blönduskóla og Húnavallaskóla?

  Forsendur áætlunarinnar eru þær að byggt er á núverandi rekstrarkostnaði Blönduskóla og áætlað fyrir fjölgun nemenda og starfsfólks. Fyrirliggjandi eru eldri greiningar sem gefa samskonar niðurstöðu.

 • Hefur verið rætt við menntamálaráðherra um stuðning við Umhverfisakademíuna? Hverjar verða fjárhagslegar skuldbindingar sveitarfélaganna?

  Umhverfisakademía hefur verið kynnt fyrir mennta- og menningarmálaráðherra og öllum þingflokkum á Alþingi. Á fundi mennta- og menningarmálaráðherra með oddvitum og sveitarstjórum lýsti ráðherra yfir ánægju með frumkvæði Húnvetninga. Í tillögum starfshópsins er gert ráð fyrir að sveitarfélögin leggi til 15 mkr. stofnframlag.

 • Ef Húnavallaskóli verður lagður niður, á þá að segja upp þeim starfsmönnum sem þar vinna?

  Það stendur ekki til að leggja Húnavallaskóla niður. Lagt er til að Blönduskóli og Húnavallaskóli sameinist í nýjan skóla sem byggist á hefðum, þekkingu og reynslu beggja skóla. Samstarfsnefndin leggur áherslu á að nýr skóli taki mið af þörfum barna úr þéttbýli og dreifbýli.

  Það á eftir að útfæra hvernig að mögulegri sameiningu verður staðið, en lagt er til að sameinaður skóli starfi á tveimur stöðum fyrstu 1-2 skólaárin og sameinist á einn kennslustað á Blönduósi eigi síðar en 2024. Sameining skólanna verður unnin í samráði við starfsfólk og ekki stendur til að segja fólki upp. Eðlilegar breytingar í starfsmannahópnum, þ.e. þegar fólk hættir störfum, er hægt að nýta til að ná fram hagræðingu í skólastarfinu á næstu árum.

 • Ef það verður sameinað, er hægt að taka það til baka eftir einhvern tíma?

  Það eru ekki ákvæði í sveitarstjórnarlögum um að skipta sveitarfélögum upp. Það hefur þó verið gert og þá með sérlögum. Það hefur þó ekki verið stefna Alþingis undanfarna áratugi.

 • Hver verður staða íþróttafélaga og stjórnsýslu kringum þau ef að sameiningu verður?

  Sameining hefur ekki áhrif á stöðu íþróttafélaga. Í stjórnsýslu íþróttamála ætti að skapast svigrúm til meiri sérhæfingar, þannig að starfsmenn geti helgað sig íþrótta-og frístundamálum en sinni ekki mörgum öðrum verkefnum að auki.