Spurt og svarað

Skólamál

 • Ef Húnavallaskóli verður lagður niður, á þá að segja upp þeim starfsmönnum sem þar vinna?

  Það stendur ekki til að leggja Húnavallaskóla niður. Lagt er til að Blönduskóli og Húnavallaskóli sameinist í nýjan skóla sem byggist á hefðum, þekkingu og reynslu beggja skóla. Samstarfsnefndin leggur áherslu á að nýr skóli taki mið af þörfum barna úr þéttbýli og dreifbýli.

  Það á eftir að útfæra hvernig að mögulegri sameiningu verður staðið, en lagt er til að sameinaður skóli starfi á tveimur stöðum fyrstu 1-2 skólaárin og sameinist á einn kennslustað á Blönduósi eigi síðar en 2024. Sameining skólanna verður unnin í samráði við starfsfólk og ekki stendur til að segja fólki upp. Eðlilegar breytingar í starfsmannahópnum, þ.e. þegar fólk hættir störfum, er hægt að nýta til að ná fram hagræðingu í skólastarfinu á næstu árum.

 • Hvað verður þá um kennara sem starfa á húnavöllum?

  Þeir verða hluti af sameinuðum Blönduskóla og Húnavallaskóla á sömu forsendum aðrir starfsmenn.

 • Hvaða forsendur liggja að baki 40-50 mkr. áætlaðri hagræðingu við sameiningu Blönduskóla og Húnavallaskóla?

  Forsendur áætlunarinnar eru þær að byggt er á núverandi rekstrarkostnaði Blönduskóla og áætlað fyrir fjölgun nemenda og starfsfólks. Fyrirliggjandi eru eldri greiningar sem gefa samskonar niðurstöðu.

 • Geta foreldrar í Húnavatnshreppi sent börnin sín í Blönduskóla í haust ef sameining verður samþykkt?

  Samstarfsnefnd hefur ekki lagt til að boðið verður upp á frjálst skólaval innan sameinaðs sveitarfélags. Grundvöllur áframhaldandi kennslu á Húnavöllum er að þeir nemendur sem eiga lögheimili í Húnavatnshreppi sæki þar nám. Það er því líklegt að Húnavatnshreppur verði áfram skilgreindur sem sérstakt skólahverfi og að nemendur þaðan sæki nám sitt í Húnavallaskóla fram að sameiningu á einum kennslustað.

 • Afhverju má ekki sameina skólana fyrr en 2024, er ekki best að gera það fyrr t.d. haustið 2023?

  Í framtíðarsýn samstarfsnefndar er talað um að sameining eigi sér stað „eigi síðar en árið 2024“ það útilokar ekki að sameiningin eigi sér stað fyrir þann tíma.

 • Núna hefur því verið haldið fram að árlegur sparnaður við sameiningu skólanna sé um 50m.kr, en á sama tíma að allt starfsfólk hafi starf við skólann - hvernig á þá að ná þessum sparnaði fram?

  Gert er ráð fyrir að sparnaður í rekstri grunnskóla náist á nokkrum árum. Starfsmannvelta verður nýtt til að laga starfsmannfjöldann að nýjum aðstæðum. Framlög jöfnunarsjóðs haldast óbreytt í fimm ár og það gefur svigrúm til að mæta umframkostnaði sem af þessu fyrirkomulagi hlýst.

 • Er börnum úr Húnavallaskóla heimilt að fara í blönduskóla strax næsta haust ef að sameinað verður eða þarf að bíða eftir „formlegri“ sameiningu skólanna?

  Samstarfsnefnd hefur ekki rætt það hvort boðið verður upp á frjálst skólaval ef af sameiningunni verður. Sameiningu skólanna þarf að útfæra nánar í samráði sveitarstjórnar, starfsmanna, nemenda og forráðamanna.

 • Hefur verið hugað að akstri út um sveitir héraðsins t.d. bíll um miðjan dag við lok skóladags og aftur undir kvöld þ.e. þegar félagsstarfi líkur.

  Já, samstarfsnefnd gerir ráð fyrir að boðið verði upp á akstur til að gera börnum úr dreifbýlinu kleift að taka þátt í félags- og tómstundastarfi. Lögð er áhersla á samræmingu skóla- og frístundastarfs til að stuðla að samfellu í „vinnudegi“ barnanna. Skóla- og frístundaakstur þarf að útfæra nánar ef af sameiningu verður, s.s. varðandi tíðni ferða.

 • Haldið þið virkilega að það séu störf fyrir núverandi kennara á Húnavöllum í skólanum á Blönduósi? Til dæmis mun annar skólastjórinn missa sína stöðu.

  Í framtíðarsýn samstarfsnefndar er ekki gert ráð fyrir uppsögnum almennra starfsmanna, heldur að aðlögun starfsmannafjölda að breyttum aðstæðum ráðist af starfsmannaveltu. Einhverjir almennir starfsmenn gætu þó þurft að sæta breytingum á störfum. Samstarfsnefnd gerir ráð fyrir að stöður lykilstjórnenda skólanna verði auglýstar til umsóknar.

Atvinnu- og byggðamál

 • Húnavatnshreppur er landríkur. Er það rétt að til sé sjálfseignarfélag um upplönd hreppsins þ.e.a.s. heiðalöndin? Ef þetta er rétt rennur þá hugsanleg ur arður af samningum við Landsvirkjun vegna framkvæmda

  Það eru starfandi sjálfseignarstofnanir um nýtingu og veiðihlunnindi á afréttarlöndum sveitarfélaganna. Tilgangur þeirra er að tryggja að afréttarlöndin nýtist með sama hætti og verið hafði fyrir sameiningu sveitarfélaganan sem nú mynda Húnavatnshrepp. Arður af hlunnindum sjálfseignarstofnananna rennur til niðurgreiðslu á fjallskilakostnaði.

 • Eru fleiri hugmyndir fyrir húsnæðið á Húnavöllum ef stofnun umhverfisakademíu gengur ekki upp?

  Umhverfisakademían er forgangsverkefni núna, en jafnframt eru mikil tækifæri í tengslum við ferðaþjónustu. Mannvirkin á Húnavöllum eru stór og bjóða upp fjölbreytta nýttingu. Eitt verkefni útilokar ekki annað.

 • Haldiði það virkilega að slagkrafturinn aukist i sambandi við vegi sveitarfélagsfelagsins?

  Reynslan sýnir að það er líklegt. Slagkraftur svæðisins hefur ekki verið mikill undanfarin ár og því líklegt að hann aukist.

 • Hefur verið rætt við menntamálaráðherra um stuðning við Umhverfisakademíuna? Hverjar verða fjárhagslegar skuldbindingar sveitarfélaganna?

  Hugmyndin umhverfisakademíu hefur verið kynnt fyrir ráherrum og öllum þingflokkum á Alþingi. Hugmyndinni hefur verið vel tekið og ráðgjafanefnd Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga hefur samþykkt að veita 40 m.kr. styrk til verkefnisins á árunum 2022 og 2023. Í tillögum starfshóps um umhverfisakademíu á Húnavöllum er gert ráð fyrir að reksturinn verði fjármagnaður með opinberum styrkjum og skólagjöldum, en að sveitarfélagið/-félögin leggi til 15 m.kr. í hlutafé í upphafi og húsnæði, sem jafngildir um 5 m.kr. framlagi á ári í formi húsaleigu.

 • Mikil ónotuð orka er í Blönduvirkjun, sem ekki er unnt að senda burt vegna lítilla flutningsgetu. Hafið þið skoðað um enn aukna nýtingu hér í héraði, Slíkt væri mikilsvert fyrir héraðið.

  Já, samstarfsnefnd hefur vakið athygli ráðherra og þingmanna á því að orku skortir á svæðinu þrátt fyrir mikla orkuframleiðslu og bent á leiðir til lausna.

 • Til hvers þurfum við aukna rafmagnstengingu, til að gagnaverin við Blönduós geti gramsað eftir meiri Bitcoin ? Hvaða hag höfum við af því?

  Aukin flutningsgeta rafmagns myndi skapa möguleika á uppbyggingu atvinnulífs á ýmsum sviðum. Starfsemi gagnavera er þannig ekki eina uppbyggingin sem möguleikar myndu skapast á. Því skal haldið til haga að starfsemi gagnaversins á Blönduósi er fjölbreyttari en fyrirspyrjandi gefur til kynna og hefur haft mjög jákvæð áhrif á samfélagið.

 • Er skipulögð iðnaðarlóð í námunda við Blönduvirkjun. Spurt vegna þess að línur eru ekki til að flytja næga orku til Blönduóss. Ef ekki er til lóð á því svæði, væri ekki rétt að stefna að því.

  Við stöðvarhús Blönduvirkjunar er stór lóð sem vel ætti að geta rúmað einhverja atvinnustarfsemi.

 • Hefur eitthvað verið rætt um möguleg glatvarma verkefni, saman ber fiskeldi á húnavöllum, gróðurhús eða nýtingu á glatvarma við gagnaverið svo eitthvað sé nefnt?

  Já, unnið er að hugmyndum að nýtingu glatvarma frá Gagnaverinu, á vettvangi SSNV, og hefur það verkefni m.a. hlotið styrk frá Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Nú er verið að rannsaka hversu mikill varminn gæti verið og með hvaða hætti væri mögulegt að nýta hann með sem minnstum tilkostnaði og þá helst á gagnaverslóðinni. Hugmyndir um fiskeldi/seiðaeldi á Húnavöllum hefur frekar verið tengd nýtingu á heitu vatni úr borholum á því svæði.

Félags- og skólaþjónusta

 • Hvar falla málefni fatlaðs fólks eða hver er stefnan í þeim málum? Sá málaflokkur er ekkert nefndur hér á fundinum.

  Samstarfsnefnd gerir ráð fyrir áframhaldandi samstarfi við Sveitarfélagið Skagafjörð og önnur sveitarfélög á svæðinu í málefnum fatlaðs fólks.

Sameining og kosningar

 • Ef það verður sameinað, er hægt að taka það til baka eftir einhvern tíma?

  Það eru ekki ákvæði í sveitarstjórnarlögum um að skipta sveitarfélögum upp. Það hefur þó verið gert og þá með sérlögum. Það hefur þó ekki verið stefna Alþingis undanfarna áratugi.

 • Hvernig verður nafn sameinaðs sveitarfélags ákveðið?

  Sveitarstjórn sameinaðs sveitarfélags ákveður nafnið ef sameining verður samþykkt. Algengt verklag er að kalla eftir tillögum að nöfnum, eiga samráð við Örnefnanefnd og leggja því næst tillögur til atkvæðagreiðslu meðal íbúa.

 • Ef af sameiningu verður, hvenær er áætlað að hún taki gildi?

  Eftir sveitarstjórnarkosningar sem fara fram 14. maí 2022. Gildistaka yrði um mánaðarmótin maí- júní 2022.

 • Er það tryggt að áformin í kynningunni verði í nýju sveitarfélagi?

  Framtíðarsýnin er byggð á samráði við marga aðila sem eykur líkurnar á að sátt sé um hana. Það er ekki tryggt að öll áform gangi eftir, það mun velta á vilja nýrrar sveitarstjórnar og fjármagni.

 • Get ég kosið hjá sýslumanninum á Blönduósi?

  Já, hægt er að greiða atkvæði utan kjörfundar á skrifstofum sýslumanna um allt land.

Tómstundir og menning

 • Hver verður staða íþróttafélaga og stjórnsýslu kringum þau ef að sameiningu verður?

  Sameining hefur ekki áhrif á stöðu íþróttafélaga. Í stjórnsýslu íþróttamála ætti að skapast svigrúm til meiri sérhæfingar, þannig að starfsmenn geti helgað sig íþrótta-og frístundamálum en sinni ekki mörgum öðrum verkefnum að auki.

 • Hvað á að gera við félagsheimilin í Húnaveri og Dalsmynni ?

  Í framtíðarsýninni er ekki tekin afstaða til þess hvað verði um félagsheimilin.

 • Hvað sjá núverandi sveitarfélög fyrir sér varðandi félagsstarf eldri borgara í nýju sameinuðu sv. félagi?

  Í framtíðarsýn samstarfsnefndar er gert ráð fyrir að auka framboð og bæta aðgengi að félagsstarfinu. Akstur úr sveitum getur verið í tengslum við skóla- og frístundaakstur barna og unglinga. Sjá má fyrir sér að stofnuð verði dagradvöl fyrir eldri borgara í samstarfi við HSN en slíka þjónustu vantar hér í héraðið.

 • Hvað verður gert við félagsheimilin?

  Í framtíðarsýninni eru ekki tillögur um breytingar á fyrirkomulagi félagsheimila.

 • Hefur verið hugað að akstri út um sveitir héraðsins t.d. bíll um miðjan dag við lok skóladags og aftur undir kvöld þ.e. þegar félagsstarfi líkur.

  Já, samstarfsnefnd gerir ráð fyrir að boðið verði upp á akstur til að gera börnum úr dreifbýlinu kleift að taka þátt í félags- og tómstundastarfi. Lögð er áhersla á samræmingu skóla- og frístundastarfs til að stuðla að samfellu í „vinnudegi“ barnanna. Skóla- og frístundaakstur þarf að útfæra nánar ef af sameiningu verður, s.s. varðandi tíðni ferða.

 • Yrðu allir samkomustaðir staðsettir á Blönduósi? Hvað með t.d félagsheimilin?

  Það er ekki gert ráð fyrir að eignarhald félagsheimilanna breytist og í áætlunum Húnavatnshreppps er gert ráð fyrir fjármunum í viðhald félagheimila á næstu árum. Verið er að leita að rekstraraðila til að taka að sér rekstur Húnavers en auglýsingar hafa ekki skilað árangri.

Stjórnsýsla og fjármál

 • Munu sveitarstjórnarfulltrúar í sameinuðu sveitarfélagi verða fulltrúar fyrir alla íbúa, hvar sem þeir búa? Ber þeim skylda til að þjónusta og hugsa um hag allra íbúa?

  Sveitarstjórnarmönnum ber samkvæmt lögum að gæta að almennum hagsmunum íbúa sveitarfélagsins alls.

 • Eru það hagkvæmissjónarmið eða sálræn sjónarmið sem liggja á bak við þá hugmynd að koma upp nýju ráðhúsi?

  Það má segja að bæði sjónarmið liggi að baki hugmyndinni. Annarsvegar þykir samstarfsnefndinni heppilegt og táknrænt að nýtt sveitarfélag hefji starfsemi á nýjum stað. Hins vegar myndi flutningur starfsemi sveitarfélagsins úr núverandi húsnæði skapa möguleika á aukningu umsvifa innheimtumiðstöðvar Sýslumannsembættisins og á aðstöðu fyrir störf án staðsetningar á vegum stofnana ríkisins.

Umhverfi og skipulag

 • Verða sorptunnur áfram í dreifbýlinu?

  Samstarfsnefnd gerir ekki ráð fyrir að breytingar verði á fyrirkomulagi sorphirðu að öðru leyti en því að fylgja þarf breytingum á lögum og reglugerðum um hámarksstærðir sorpíláta og gjaldheimtu sem hafa verið boðaðar.

 • Hversu oft á ári yrði sorp og rúlluplast tekið?

  Sameiningin sem slík hefði ekki áhrif á söfnunartíðni eða fyrirkomulag söfnunar. Útfærsla sorphirðu hefur ekki verið rædd í samstarfsnefnd.

 • Hvernig verður sameinað sveitarfélag umhverfisvænasta sveitarfélagið ? Eingöngu grænn iðnaður skipulagður í framtíðinni?

  Það kæmi í hlut sveitarstjórnar sameinaðs sveitarfélags að útfæra nánar stefnu í umhverfismálum og leiðir að markmiðinu. Ljóst er að markmiðið er háleitt og að það kallar á mikla samstöðu íbúa og vinnu að láta það ná fram að ganga. Umhverfisakademían myndi styðja við þetta markmið.