Spurt og svarað

 • Árið 2019 skuldar Blönduós 972.120.000 hverjar voru heildarskuldir Blönduós í lok árs 2020??

  Ársreikningar sveitarfélaganna vegna ársins 2020 munu liggja fyrir í apríl og þá verður hægt að upplýsa um peningalega stöðu í árslok.

 • Hverjar voru heildarskuldir Blönduósbæjar í lok árs 2020?

  Skuldir og skuldbindingar Blönduósbæjar samtals í árslok 2020 voru 1.674.457 kr. (lífeyrisskuldbinding, langtímaskuldir og skammtímaskuldir)

  Svarið var uppfært 12.5.2021

 • Er það rétt að Blönduósbær sé búin að taka meiri lán á árinu 2021? Ef það er rétt þá hvað var það mikið?

  Samkvæmt fjárhagsáætlun Blönduósbæjar, fyrir árið 2021, þá var gert ráð fyrir lántöku að upphæð 200 mkr., meðal annars til þess að klára stærstu fjárfestingu síðari ára, sem er lokaáfangi verknámsbyggingar við Blönduskóla. Gengið hefur verið frá þeirri fjármögnun hjá Lánasjóði sveitarfélaga.

 • Hvað er áætlað að viðbyggingin við leikskólann á Blönduósi muni kosta?

  Það er aðeins hafin frumhönnun og greining á þörfum, varðandi stækkun leikskólans og þar mun verða rýnifundur með hlutaðeigandi í maí, meðal annars til þess að meta þörf og kostnað við stækkun hans.

 • Er til kostnaðaráætlun um væntanlegt viðhald á félagsheimilinu á Blönduósi?

  Ekki hefur verið gerð heildarkostnaðaráætlun varðandi viðhald á félagsheimilinu, en í fjárhagsáætlun 2021-2024, eru samtals settar í 38 m.kr. fjárfestingar. Þar af eru 8 m.kr. á áætlun ársins 2021 en 10 m.kr. á ári 2022–2024.

 • Hvert var eigið fé sveitarfélaganna fjögurra, handbært fé og skuldir, sundurliðaðar í langtímaskuldir, skammtímaskuldir og lífeyrisskuldbindingar, í árslok 2020?

  Taflan hér að neðan sýnir þær stærðir sem spurt er um. Ef smellt er á töfluna opnast PDF-skrá með yfirlitinu. Fjárhæðirnar eru í þúsundum króna.

 • Hvernig verður nafn sameinaðs sveitarfélags ákveðið?

  Sveitarstjórn sameinaðs sveitarfélags ákveður nafnið ef sameining verður samþykkt. Algengt verklag er að kalla eftir tillögum að nöfnum, eiga samráð við Örnefnanefnd og leggja því næst tillögur til atkvæðagreiðslu meðal íbúa.

 • Er einhver trygging fyrir því að áformin í þessari vinnu verði raungerð í nýju sveitarfélagi, ef af sameiningu verður?

  Ný sveitarstjórn getur tekið nýjar ákvarðanir um flest sem viðkemur starfsemi sveitarfélagsins. Það er gert ráð fyrir að tiltekin atriði í stjórnskipulagi verði bundin í að minnsta kosti tvö kjörtímabil á grundvelli tilraunaákvæðis í sveitarstjórnarlögum, svo sem um fjölda í sveitarstjórn, staðsetningu verkefna og að sett verði ákvæði í samþykktir um að ekki verði heimilt að gera veigamiklar breytingar á grunnþjónustu án samráðs við íbúana á viðkomandi stað.

 • Er eitthvað sem bannar nýju sveitarfélagi að leggja skólann á Skagaströnd niður?

  Það er ekki hægt að binda hendur sveitarstjórna framtíðarinnar. Gert er ráð fyrir að í samþykktum nýs sveitarfélags verði ákvæði um að ekki verði heimilt að gera veigamiklar breytingar á grunnþjónustu án samráðs við íbúana á viðkomandi stað. Ef sveitarstjórn myndi vilja loka skóla eða gera aðrar veigamiklar breytingar, þá væri það ekki hægt án aðkomu íbúa á Skagaströnd.

 • Mun verða trygging fyrir því að það verði sveitarstjórnarfulltrúi frá Skagaströnd í sveitarstjórn nýs sveitarfélags?

  Það er ekki tryggt, en framboðin munu að líkindum stilla upp listum með fulltrúum sem víðast úr sveitarfélaginu.

 • Nú er ekki stefnt að því að hafa heimastjórnir í nýju sveitarfélagi, hver mun gæta hagsmuna Skagstrendinga?

  Sveitarstjórnarmönnum ber samkvæmt lögum að gæta að almennum hagsmunum íbúa sveitarfélagsins alls. Að líkindum verða einhverjir kjörnir fulltrúar frá Skagaströnd hafa þá beinni tengingu við hagsmuni staðarins.

 • Ef af sameiningu verður, hvenær er áætlað að hún taki gildi?

  Eftir sveitarstjórnarkosningar 2022. Gildistaka yrði um miðjan júní 2022.

 • Munu sveitarstjórnarfulltrúar í sameinuðu sveitarfélagi verða fulltrúar fyrir alla íbúa, hvar sem þeir búa? Ber þeim skylda til að þjónusta og hugsa um hag allra íbúa?

  Sveitarstjórnarmönnum ber samkvæmt lögum að gæta að almennum hagsmunum íbúa sveitarfélagsins alls.

 • Mun þessi samstarfsnefnd fylgja vinnuni eftir ef að sameiningu verður?

  Samkvæmt lögunum verður skipuð undirbúningsstjórn, sem er yfirleitt skipuð sama fólki og sat í samstarfsnefndinni.

 • Í kynningarbæklingnum segir að hafnamál verði staðsett á Blönduósi. Er það rétt?

  Það er villa í bæklingnum. Hafnarmál verða staðsett á Skagaströnd.

 • Hver er ávinningurinn fyrir Skagströnd af sameiningu á þessum tímapunkti? Samstarf um félagsmál og fleira er vel hægt að framkvæma an þess að sameinast.

  Það verður hver íbúa að meta fyrir sig á grundvelli þeirra upplýsinga sem er að finna á hunvetningur.is Meðal þeirra tækifæra sem nefnd hafa verið er fjölgun starfa í stjórnsýslu á Skagaströnd frá því sem nú er. Sameiningarframlög úr Jöfnunarsjóði er ávinningur fyrir svæðið allt og að líkur eru á að hægt sé að flýta fjárfestingum sem eru fyrirhugaðar á Skagaströnd.

 • Hefur þessi áætlun og áform fyrir nýtt sveitarfélag eitthvað að segja eða mun ný sveitarstjórn geta haft fyrirkomulagið með öðrum hætti?

  Ný sveitarstjórn getur tekið nýjar ákvarðanir. Það er gert ráð fyrir að tiltekin atriði í stjórnskipulagi verði bundin í að minnsta kosti tvö kjörtímabil, svo sem um fjölda í sveitarstjórn, staðsetningu verkefna og að sett verði ákvæði um að ekki verði heimilt að gera veigamiklar breytingar á grunnþjónustu án samráðs við íbúana á viðkomandi stað.

 • Fellur samningur Hjallastefnunar við Sveitarfélagið Skagaströnd úr gildi ef af sameiningu verðu?

  Nei. Sameinað sveitarfélag yfirtekur skuldbindingar Sveitarfélagsins Skagastrandar samkvæmt samningnum.

 • Er búið að meta viðhaldsþörf á öðrum stöðum en á Skagaströnd eða er verið að reyna að draga úr góðri stöðu okkar?

  Viðhaldsþörfin var metin í öllum sveitarfélögunum.

 • Nú eru sameiningarframlög ekki greidd í einni greiðslu heldur á 7 ára tímabili. Er ekki líklegt að fjármunirnir fari í annað en að sameina svetarfélög og greiða niður skuldir?

  Sveitarfélaginu verður skylt að nýta skuldajöfnunarframlög til niðurgreiðslu skulda. Sveitarfélagið þarf að upplýsa Jöfnunarsjóð um hvernig það hyggst nýta framlögin til þróunar í þjónustu og stjórnsýslu. Það er því tryggt að framlögin munu nýtast til þess sem til er ætlast.

 • Hvað verður um Sæborg á Skagaströnd sem er einn af stærstu vinnustöðum á Skagaströnd ef velferðarsvið verður á Blönduósi?

  Sæborg mun starfa áfram í núverandi mynd og engin áform um breytingar.

 • Hvað kostar að sameina sveitarfélag? Munu sameiningarframlögin fara í þann kostnað þar sem þær eru greiddar á 7 ára tímabili?

  Gert er ráð fyrir að kostnaður við breytingar og innleiðingu sameinaðs sveitarfélags verði um 80 mkr. á fyrsta ári og um 40 m.kr. árlega næstu 4 ár. Sá kostnaður verður fjármagnaður með sameiningarframlögum.

 • Mun nýtt sveitarfélag selja golfvöllinn, eða kaupa líka völlinn í Vatnahverfi?

  Það eru engin áform um breytingar á golfvöllum.

 • Eru fjárfestingaáætlannir sveitafélaganna einhverstaðar birtar? Ef svo er ekki væri gott að vita hvað er á bakvið þær annað en huglægt mat.

  Þær eru í fjárhagsáætlunum hvers sveitarfélags og byggja á mati starfsmanna og kjörinna fulltrúa.

 • Hver er framtíð byggðasamlaga ef ekki kemur til sameiningar?

  Það hefur ekki verið útfært, en búast má við breytingum á byggðasamlögunum. Það á bæði við um stjórnskipulag og verkefni.

 • Verðu ekki farið í framkvæmdir við sjóböð á Skagaströnd ef ekki finnast fjárfestar?

  Sveitarfélagið Skagaströnd vinnur að sjóbaðaverkefninu óháð sameiningarviðræðunum. Á fundinum kom fram að ef ekki finnast fjárfestar er hægt að draga úr umfangi verkefnisins og aðlaga það að breyttum aðstæðum.

 • Hefur það nokkurn tíman gerst að fram hafi komið einhver loforð um eitthvað frá ríkisvaldinu í sameiningarferli.

  Alþingismenn og ráðherrar hafa í gegnum tíðina lofað ýmsu, t.d. í samgöngumálum. Það er alltaf háð því að verkefnin fái samþykki í fjárlögum.

 • Verður gild kjörskrá sú sem er gild á kjördag?

  Já, það verður gild kjörskrá á kjördag. Kjósendur geta flett upp í kjörskrá á www.skra.is.

 • Hefur verið rætt um að ákveðnar eignir sveitafélaganna verði séreign íbúa þess svæðis óháð sameinigu?

  Það stendur ekki til.

 • Hvað hyggst nýtt sameinað sveitarfélag gera varðandi höfnina á Blönduósi? Hefur það verið rætt? Á að halda áfram að reka báðar hafnirnar?

  Það hefur ekki verið rætt sérstaklega, en höfnin á Skagaströnd verður aðalhöfn sveitarfélagsins.

 • Fram hefur komið að nýja sveitarfélagið verði leiðandi í umhverfismálum. Kom ekki til álita að vera með Umhverfissvið sem sæi um verkefni sem nú eru í hinum svikunum t.d Landnýting og samgöngumál.

  Það verður sérstök umhverfisnefnd. Það hefur ekki verið rætt um sérstakt umhverfissvið, en þetta er góð ábending og hefur henni verið komið á framfæri.

 • Er það rétt að eitt eða fleiri sveitafélög hafi hótað að hætta í viðræðunum ef hinum væri heimilt að sameinast áfram ef eitt þeirra hefði fellt?

  Það er ekki rétt.

 • Verður skólahverfið eitt strax eftir kosningar 2022 að því gefnu að sveitarfélögin sameinast?

  Það er ekki skilyrði að í einu sveitarfélagi sé eitt skólahverfi. Það verður nýrrar sveitarstjórnar að ákveða hve mörg skólahverfi verða í sveitarfélaginu.

 • Getur ný sveitarstjórn lokað Blönduskóla, þó það eigi að halda honum í þessum áformum?

  Ný sveitarstjórn getur tekið ákvörðun um að loka Blönduskóla eins og öðrum þjónustustofnunum. Gert er ráð fyrir að bundið verði í samþykktum sveitarfélagsins að ekki verði hægt að gera grundvallarbreytingar á nærþjónustu án samráðs við íbúa á viðkomandi stað. Sveitarstjórnin myndi því þurfa að bera ákvörðun um lokun Blönduskóla undir íbúa á Blönduósi.

 • Er ekki meiri líkur á því að Ísland gangi í Evrópusambandið en að Autur Húnvetningar sameinist? :-)

  Það kemur væntanlega í ljós 5. júní.

 • Er ekki ljóst að fulltrúar í sveitarstjórn munu þurfa að vinna meira fyrir sveitarfélagið og því nauðsynlegt að greiða fyrir það. Að sveitarstjórnarfulltrúa eru tæplega í 100% starfi annarsstaðar?

  Við fækkun fulltrúa úr 24 í 9 er líklegt að verkefni þeirra breytist og álag verði annað. Gert er ráð fyrir að greiða þeim hæfilega þóknun.

 • Hver er kostnaðurinn orðinn við þessar viðræður, hvað er reiknað með að hann verði hár og hver greiðir?

  Jöfnunarsjóður sveitarfélaga greiðir allann kostnað við verkefnið. Upplýsingar um kostnað og stöðu verkefnisins verða settar inn þegar þeirra hefur verð aflað.

 • Myndi nýtt sveitarfélag, ef sameining yrði samþykkt, beita sér fyrir því að lágvöruverðsverslun komi á svæðið?

  Það fer eftir áherslum sveitarstjórnarfulltrúa en ný sveitarstjórn mun örugglega beita sér fyrir því, eins og öðrum hagsmunum Austur-Húnvetninga.

 • Hvernig sjá fulltrúar sameiningarnefndarinnar fyrir sér að almeningssamgöngur verði í hinu nýja sveitafélagi?

  Það hefur ekki verið útfært, en í greiningunni eru dregin fram tækifæri við að tengja betur saman skólaakstur og frístundaakstur fyrir börn og eldri borgara.

 • Verður áhaldahús og starfsmenn þess á báðum þéttbýlisstöðunum?

  Já, engin áform eru um breytingar á því.

 • Hefur verið mótuð stefna varðandi þau félagsheimili sém verða í sameinuðu sveitafélagi og ef ekki hefur þá verið metið sérstaklega hver kostnaðurin við þau yrði?

  Það hefur ekki verið mótuð stefna um félagsheimilin. Fyrirliggjandi er gróft mat á viðhaldskostnaði.

 • Sér oddviti sveitastjórnar í skagabyggð fyrir sér að skagabyggð verði rekstrarhæft eftir 5ár ef ekki verður af sameinigu, þar sem það er ljóst að framlög jöfnunarsjóðs munu skerðast verulega?

  Ef af skerðingu Jöfnunarframlaga verður, eins og boðað hefur verið, þá getur rekstrargrundvöllur Skagabyggðar orðið mjög erfiður.

 • Hvar stendur til að hafa aðal „útiíþróttasvæði“ sameinaðs sveitafélags? Allar aðstæður á þessum stöðum eins og staðan er núna er mjög léleg.

  Það hefur ekki verið ákveðið og verður á höndum nýrrar sveitarstjórnar.

 • Hvaða forsendur liggja á bak við þá ákvörðun að hafa 9 fulltrúa í sveitastjórn, frekar en að hafa 5 eða 7, og afhverju í 2 kjörtímabil ?

  Með fleiri fulltrúum eru meiri líkur á að hægt sé að fá fulltrúa frá öllum svæðum til starfans. Fjölgun fulltrúa í sveitarstjórn myndi byggjast á tilraunaákvæði sveitarstjórnarlaga, en tilraunir samkvæmt því skulu vara í átta ár að minnsta kosti. Eftir tvö kjörtímabil verða íbúar vonandi orðnir fleiri en 2.000 og þá verður hægt að vera með 7, 9 eða 11 fulltrúa.

 • Nú erum við mjög skuldugt sveitarfélag, mun það ekki koma niður á sameiningunni? Mun sameiningarstyrkurinn ekki bara fara í að borga niður skuldirnar?

  Það má gera ráð fyrir að um þriðjungur sameiningarframlaganna fari til niðurgreiðslu skulda, eða um 350 mkr. af um 930 mkr. Það fjármagn sem eftir stendur nýtist í önnur verkefni.

 • Af hverju eru fjárfestingar á Skagaströnd að aukast svona mikið núna? Mun verða staðið við allar þessar fjárfestingar ef sveitarfélögin sameinast ekki?

  Skagstrendingar hafa fjárfest töluvert undanfarin ár. Í áætlunum næstu ára er gert ráð fyrir miklum fjárfestingum í tengslum við Sjóböðin, í veitum, götum og viðhaldi fasteigna.

 • Hvernig fellur starfsemi Norðurár að þeirri framtíðar sýn að verða umhverfisvænasta sveitafélag á landinu? Og hefur þá verið horft til heildar áhrifa af þeirri starfsemi á umhverfið?

  Sú starfsemi fellur ágætlega að stefnumörkuninni. Það felast tækifæri í að nýta þann úrgang sem til fellur á umhverfisvænni hátt.

 • Heyrði ég það rétt að "sparnaðurinn" við að hafa einn sveitastjóra en ekki þrjá muni renna i hærri greiðslur til kjörinna fulltrúa?

  Sparnarður við fækkun kjörinna fulltrúa skapar tækifæri til að bæta kjör þeirra fulltrúa sem eftir verða. Fækkun sveitarstjóra mun skapa tækifæri til að ráða í störf annarra sérfræðinga, svo sem í mannauðsmálum, skjalamálum og upplýsingatækni.

 • Húnavatnshreppur er landríkur. Er það rétt að til sé sjálfseignarfélag um upplönd hreppsins þ.e.a.s. heiðalöndin? Ef þetta er rétt rennur þá hugsanleg ur arður af samningum við Landsvirkjun vegna framkvæmda

  Það eru starfandi sjálfseignarstofnanir um nýtingu og veiðihlunnindi á afréttarlöndum sveitarfélaganna. Tilgangur þeirra er að tryggja að afréttarlöndin nýtist með sama hætti og verið hafði fyrir sameiningu sveitarfélaganan sem nú mynda Húnavatnshrepp. Arður af hlunnindum sjálfseignarstofnananna rennur til niðurgreiðslu á fjallskilakostnaði.

 • Það væri áhugavert að heyra oddvita sveitafélaganna gera grein fyrir afstöðu sinni varðandi sameininguna!!

  Sjá svör oddvita í upptöku frá fundinum á Blönduósi (tímakóði 01:05:30).

 • Komið hefur fram að ef ekki verður að sameiningu ætlar Blönduósbær að hætta þátttöku í byggðasamlögum. Hvernig ætla þeir að leysa þau verkefni sem hafa verið á höndum samlaganna?

  Það hefur ekki verið útfært fyrir einstök verkefni. Væntanlega mun sveitarfélagið leysa einhver verkefnanna sjálft, en önnur í samstarfi. Ef til þess kemur þurfa sveitarfélögin væntanlega að semja um framhald samstarfsins og forsendur þess að nýju.

 • Hver er talin vera fjárfestingarþörf svf næstu árin? Er t.d. komin áætlun á kostnað svf Skagaströnd vegna skólpmála og uppbygginarkostnaður Brunavarna A-hún vegna nýrrar slökkvistöðvar?

  Sveitarfélögin áætla um 2 milljarða króna viðhald og fjárfestingar á árunum 2020-2024. Að auki eru áætlaðir um 1,3 milljarðar í fjárfestingar eftir 2024 sem eru ekki í samþykktum fjárhagsáætlunum en eru líklegar fyrir 2030. Það mat er gróft og unnið með mismunandi hætti eftir sveitarfélögunum. Í áætlunum er m.a. gert ráð fyrir framkvæmdum við fráveitu á Skagaströnd og vegna Brunavarna Austur-Húnavatnssýslu bs.

  Í kynningarglærum frá íbúafundum er hægt að sjá skiptingu milli sveitarfélaga. 

   

 • Er það tryggt að áformin í kynningunni verði í nýju sveitarfélagi?

  Framtíðarsýnin er byggð á samráði við marga aðila sem eykur líkurnar á að sátt sé um hana. Það er ekki tryggt að öll áform gangi eftir, það mun velta á vilja nýrrar sveitarstjórnar og fjármagni.

 • Afhverju er lögð svo mikil áhersla á að loka húnavallaskóla?

  Það er ekki lagt til að Húnavallaskóla verði lokað, heldur að Blönduskóli og Húnavallaskóli sameinist í nýjan skóla sem byggi hæfni og reynslu beggja. Verið að svara að ákalli margra foreldra nemenda í Húnavallaskóla um að börnin myndi félagslega og námslega heild með fleiri börnum á sínum aldri.

 • Ef það á að sameina grunnskólana á Blönduósi og á Húnavöllum afhverju eru þá ekki leikskólarnir sameinaðir líka ? Það hlýtur að vera hagræðing í því og sparnarður.

  Lagt verður mat á kosti og galla þess að sameina Barnabæ og Vallaból samhliða sameiningu Blönduskóla og Húnavallaskóla. Við núverandi aðstæður er ekki til leikskólahúsnæði sem rúmar allra nemendur beggja skóla.

 • Verður starfsmaður áhaldahúss Húnavatnshrepps með starfsstöð á Blönduósi ?

  Væntanlega verður ein þjónustumiðstöð með fleiri starfsstöðvar og starfsmenn geta unnið um allt sveitarfélagið. Í Húnavatnshreppi eru miklar fasteignir sem þarf að sinna og mögulega verður starfsstöð þar.

 • Hvernig sjá oddv. fyrir sér fyrirkomulag tónlistarsk. í sýslunni, framtíð Sæborgar og Hnitbjargar (rekstur íbúða) skóla- og félagsþj. fari svo að tillaga verði felld og byggðasamlögum sagt upp?

  Sjá svör oddvitanna á upptöku frá fundinum (https://www.facebook.com/watch/live/?v=325674125902705&ref=watch_permalink).

 • Hvað á að gera við félagsheimilin í Húnaveri og Dalsmynni ?

  Í framtíðarsýninni er ekki tekin afstaða til þess hvað verði um félagsheimilin.

 • Ef íbúar í einu sveitarfélaginu samþykkja ekki sameiningu hvað tekur það langan tíma þá fyrir hin sveitarfélögin að ganga til samninga og kosninga að nýju ?

  Samkvæmt sveitarstjórnarlögum er lágmarkskynningartími 8 vikur. Ef samstaða er meðal sveitarfélaganna væri mögulega hægt að undirbúa málið og kjósa samhliða þingkosningum 25. september.

 • Miðað við ætlun Ríkisins um lækkun jöfnunarsjóðsstyrkja til minni sveitarfélaga hvernig sér "neikvæða" fólkið þá fyrir sér að geta rekið batteríið sem treistir á þetta fjármagn?

  Komi til þess að Jöfnunframlög til fámennari sveitarfélaga lækki, má gera ráð fyrir að reksturinn verði erfiðari.

 • Eru fleiri hugmyndir fyrir húsnæðið á Húnavöllum ef stofnun umhverfisakademíu gengur ekki upp?

  Umhverfisakademían er forgangsverkefni núna, en jafnframt eru mikil tækifæri í tengslum við ferðaþjónustu. Mannvirkin á Húnavöllum eru stór og bjóða upp fjölbreytta nýttingu. Eitt verkefni útilokar ekki annað.

 • Haldiði það virkilega að slagkrafturinn aukist i sambandi við vegi sveitarfélagsfelagsins?

  Reynslan sýnir að það er líklegt. Slagkraftur svæðisins hefur ekki verið mikill undanfarin ár og því líklegt að hann aukist.

 • Hvað verður þá um kennara sem starfa á húnavöllum?

  Þeir verða hluti af sameinuðum Blönduskóla og Húnavallaskóla á sömu forsendum aðrir starfsmenn.

 • Varðandi sameinin.Blöndusk.og Húnavallask.: Hver eru rökin fyrir því að taka allt að 3 ár("einn kennslustaður..eigi síðar en -24") í að sameina skólana á einn kennslustað? Tæpur 1/3 af skólaævi barns.

  Gert er ráð fyrir tveimur skólaárum til að gefa foreldrum, nemendum og starfsfólki góðan aðlögunartíma og vinna faglega að verkefninu.

 • Land undir Húnaver var gefið með skilyrðum, þar á meðal að hreppnum væri ekki heimilt að selja landið.

  Í framtíðarsýninni er ekki lagt til að Húnaver eða önnur félagsheimili verði seld. Vel þekkt er að fasteignir séu seldar með lóðarleigusamningi við landeiganda.

 • Á fundi á Húnavöllum boðaði oddviti Skagastrandar hallarbyltingu innan Samband íslenskra sveitarfélaga, hversu líklegt er að þessari byltingu verði og munu aðrir oddvitar í Húnaþingi eystra styðja hana?

 • Nú rennur skólpið beint í sjóinn hér á Skagaströnd í næsta nágrenni fyrirhugaðs baðstaðar. Hvernig fer það saman? Passar það með umhverfisvænasta sveitarfélaginu ? Er hreinsistöð í áætlunum Sv.Skagastrandar?

  Í fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Skagastrandar er gert ráð fyrir um 300 mkr. fjárfestingu í fráveitu.

 • Blönduós greiðir lang stærsta hlutann í buggðarsamlögunum, en ber skertann hlut frá borði er varðar þjónustu að þeirra mati og fleira að eigin mati. Myndi Halldór semja þannig fyrir Skagaströnd?

 • Mun nýtt sveitarfélag berjast fyrir samgöngubótum út á Skaga? Eða verðum bið jaðarsvæði eins og eru í mörgum sameinuðum sveitarfélögum?

  Á fundum með þingflokkum og ráðherra er vegurinn um Skaga meðal þeirra verkefna sem lögð er áhersla á, m.a. í tengslum við uppbyggingu Norðurstrandarleiðar.

 • Hvað sjá núverandi sveitarfélög fyrir sér varðandi barna- og unglingastarf í nýju sv. félagi? T.d. varðandi félagsmiðstöðvar?

  Varðandi framtíðarsýn vegna barna- og unglingastarfs, þá má velta upp möguleikum á auknum möguleikum í íþróttastarfi og félagsstarfi eftir skóla. Frístundaakstur er kjörin leið til að fjölga þeim möguleikum sem í boði eru fyrir börn og unglinga. Efling félagsmiðstöðva og samstarf þeirra á milli er einnig fyrirsjáanlegt.

 • Hvað sjá núverandi sveitarfélög fyrir sér varðandi félagsstarf eldri borgara í nýju sameinuðu sv. félagi?

  Með frístundaakstri má auka samgang milli starfsstöðva félagsstarfs aldraðra en félagsstarf verður áfram í báðum þéttbýlisstöðum. Akstur úr sveitum getur verið í tengslum við skóla- og frístundaakstur barna og unglinga. Sjá má fyrir sér að stofna dægradvöl fyrir eldri borgara í samstarfi við HSN en slíka þjónustu vantar hér í héraðið.

 • Verður einhver þjónusta við íbúa Skagabyggðar bætt?

  Íbúar Skagabyggðar fá núna sambærilega þjónustu og íbúar annarra sveitarfélaga í A-Hún. Sjá má fyrir sér aukið framboð afþreyingar fyrir börn, ungmenni og eldri borgara verði frístundaakstri komið á. Þá má einnig sjá fyrir sér að börn úr Skagabyggð fái að taka þátt í Vinnuskóla sveitarfélagsins, en slíkt hefur ekki verið í boði í Skagabyggð. Komi til úrbóta á vegakerfi á Skaga batnar aðgengi allra íbúa norðan Skagastrandar að þjónustu og atvinnu í þéttbýlinu.

 • Ef sameining verður felld hverjar eru þá horfurnar varðandi rekstur næstu árin? Ef jöfnunarsjóðsframlög minnka verður hægt að halda áfram í því horfi sem nú er?

  Rekstarforsendur allra sveitarfélaganna eru viðkvæmar næstu árin. Ef kemur til skerðinga á Jöfnunarframlögum verður erfitt að reka þjónustuna sveitarfélaganna áfram í núverandi mynd.

 • Hvað sjá núverandi sveitarfélög fyrir sér varðandi styrkingu skólaþjónustu og félagsþjónustu - væri fjölgun starfsmanna t.d. í kortinu ef sameining yrði samþykkt?

  Í framtíðarsýninni er lögð áhersla á að varðveita þann mannauð sem er til staðar og bæta við.

 • Ef ekki kemur til sameingar og þar af leiðandi verða engin byggðasamlög mun Skagaströnd einkavæða grunnskólann og tónlistarskólann einsog leikskólann?

  Skagstrendingar hafa góða reynslu af samstarfi við Hjallastefnuna. Engin umræða hefur farið fram um breytingar á rekstarformi grunnskóla og tónistarskóla.

 • Er gert ráð fyrir því að skapa störf í Skagabyggð?

  Fjölgun atvinnutækifæra er ein af höfuðáherslum sveitarfélaganna, hvort sem af sameiningu verður eða ekki. Í Skagabyggð er skipulagt eitt stærsta iðnaðarsvæði í Austur-Húnavatnssýslu, sem býður upp á mikla möguleika.

 • Nú liggja íbúar Skagastrandar og Skagabyggðar ekki á kröfum sínum við sameiningu, hvar er kröfugerð hinna sveitarfélaganna?

  Fulltrúar Blönduósbæjar og Húnavatnshrepps hafa komið sínum áherslum fram á vettvangi starfshópa málaflokkanna og í samstarfsnefnd um sameiningu.

 • Verður sorphirða í Skagabyggð óbreytt ef að sameiningu verður. Breyting var gerð á sorphorðu á reykjaströnd og nú þurfa sveitungar þar að skila sínu rusli sjálfir í flokku á Sauðárkroki. Er það hætta

  Í framtíðarsýninni eru ekki tillögur um breytingar á sorphirðu, en fyrirliggjandi er að gerðar eru auknar kröfur varðandi úrgangsmál og að þeir sem valda úrgangi greiði fyrir úrvinnsluna. Svokallað polluter pays princicipal.

 • Hvað verður gert við félagsheimilin?

  Í framtíðarsýninni eru ekki tillögur um breytingar á fyrirkomulagi félagsheimila.

 • Eru meiri eða minni líkur á úrbótum (Malbik) á Skaga vegi ef að sameining verður ??

  Á fundum með þingflokkum og ráðherra er vegurinn um Skaga meðal þeirra verkefna sem lögð er áhersla á, m.a. í tengslum við uppbyggingu Norðurstrandarleiðar.

 • Ef fellt en Bl.ós og Húnav.hr. ákveða síðan að ganga í eina sæng og hætta með byggðarsaml. Hvernig sjá oddv. Skagastr og Skagab. þá fyrir sér framhaldið? Geta þeir haldið sömu þjónustu og nú er?

 • Hvernig stendur á því að íbúar á Blönduósi eru svona spenntir fyrir því að sameinast Skagaströnd og Skagabyggð. Sjá þeir bara peningana þeirra ?

  Það eru ekki allir íbúar Blönduósbæjar spenntir fyrir þessari sameiningu, og miðað við fjárhagsáætlanir þá er búið að ráðstafa miklum fjármunum í fjárfestingar.

 • Verður Sæborg áfram? Er hugsanlegt að það fer undir stjórn HSB?

  Í framtíðarsýninni eru ekki tillögur um breytingar á fyrirkomulagi Sæborgar.

 • Nú eru íbúar Skagabyggðar einungis þiggjendur á þjónustu eins og staðan er núna. Ef þeir neita sameiningu hvernig sér oddviti fyrir sér framhaldið? Yrði ekki erfitt að semja um þá þjónustu áfram?

 • Er tekin lagaleg ákvörðun hvernig lágmarksíbúafjöldi verður 2026?

  Sveitarstjórnarráðherra hefur boðað að fallið verði frá íbúalágmarki, en í staðinn komi annars konar viðmið um bolmagn sveitarfélaga til að reka lögbundna þjónustu.

 • Fulltrúi Blönduós sagði á fyrsta fundi að Dvalarheimilið Sæborg yrði áfram í rekstri á Skagaströnd. Er oddviti Blönduóss sammála?

  Já hann er sammála, og það hafa engar tillögur verið uppi um breytingar á Sæborg, enda liggur fyrir að það þarf að bæta í ýmsa þjónustu við eldri borgara í A-Hún.

 • Hvaða forsendur liggja að baki 40-50 mkr. áætlaðri hagræðingu við sameiningu Blönduskóla og Húnavallaskóla?

  Forsendur áætlunarinnar eru þær að byggt er á núverandi rekstrarkostnaði Blönduskóla og áætlað fyrir fjölgun nemenda og starfsfólks. Fyrirliggjandi eru eldri greiningar sem gefa samskonar niðurstöðu.

 • Hefur verið rætt við menntamálaráðherra um stuðning við Umhverfisakademíuna? Hverjar verða fjárhagslegar skuldbindingar sveitarfélaganna?

  Umhverfisakademía hefur verið kynnt fyrir mennta- og menningarmálaráðherra og öllum þingflokkum á Alþingi. Á fundi menntamá og menningarmálaráðherra með oddvitum og sveitarstjórum lýsti ráðherra yfir ánægju með frumkvæði Húnvetninga. Í tillögum starfshópsins er gert ráð fyrir að sveitarfélögin leggi til 15 mkr. stofnframlag.

 • Getið þið svarað mér hvernig sameining sveitafélagana mun hafa áhrif á byggðarkvóta?

  Sameining sveitarfélaga ætti ekki að hafa nein áhrif á úthlutun byggðakvóta. Heimilt er að setja sérreglur fyrir hvert byggðarlag innan sameinaðs sveitarfélags og geta þær verið mismunandi svo framarlega sem þær eru rökstuddar og byggja á haldbærum og málefnalegum sjónarmiðum.

 • Afhverju er verið að fara aftur til ársins 2012 þegar það er verið að bera saman peningalega stöðu sveitarfélaganna ?(batnað um 130 milljónir síðan 2012) Hvers vegna er ekki bara borið saman 2017-2019 eins og þegar peningalega staðan er borin saman??

  Myndin sem vísað er til sýnir þróun fyrir árin 2017-2019, sem eru þau ár sem jafnan er miðað við. Í texta er þess getið að frá 2012 hafi peningaleg staða sveitarfélaganna í heild batnað um 130 mkr. Eins og myndin ber með sér hefur peningaleg staða sveitarfélaganna samanlagt batnað um 14 mkr. frá 2017. 

 • Hvernig verður kosningin, þ.e.a.s. verður hægt að játa sameiningu við eitt sveitarfélag en neita öðru og mun úrslit kosninganna ráða um hvort einhver sveitarfélög sem samþykktu færu áfram í sameiningu eða er þetta bara spurning um allt eða ekkert?

  Íbúar í hverju og einu sveitarfélagi ráða niðurstöðu fyrir sitt sveitarfélag. Einfaldan meirihluta þarf til að samþykkja eða hafna sameiningartillögu. Ef sameiningu er hafnað í einu sveitarfélaganna og þar búa færri en 1/3 íbúanna mega hin sveitarfélögin halda áfram með sameiningu samkvæmt sveitarstjórnarlögum. Samstarfsnefndin hefur hins vegar hvatt sveitarstjórnirnar fjórar til að lýsa því yfir að þær muni ekki nýta þessa heimild. Ef svo fer, þá er þetta spurning um allt eða ekkert. 

 • Er búið að samþykkja íbúalágmark? Er líklegt að það verði gert?

  Samkvæmt nýjustu fréttum er unnið að breytingum lagafrumvarpinu sem miða að því að fella íbúalágmarkmið út og setja annarskonar viðmið. Væntanlega verður það rætt á Alþingi á næstu misserum.

 • Á að sameina Höfðaskóla við hina skólana eða breyta skólastarfinu?

  Samstarfsnefndin leggur ekki til að sameina Höfðaskóla við aðra skóla. Það hefur ekki verið rætt að gera breytingar á skólastarfi, en í sameinuðu sveitarfélagi mun líklega fara fram vinna við mótun skólastefnu.

 • Á að sameina Vallaból og Barnabæ?

  Það hefur ekki verið ákveðið. Samhliða sameiningu Blönduskóla og Húnavallaskóla verður lagt mat á hvort skynsamlegt er að sameina leikskólana. Eins og staðan er núna er ekki til húsnæði sem rúmar alla nemendur Vallabóls og Barnabæjar.

 • Er hægt að vera bæði með einkarekinn og sveitarfélagarekinn leikskóla í sama sveitarfélaginu?

  Já, það er vel hægt og mörg fordæmi fyrir því.

 • Ef Húnavallaskóli verður lagður niður, á þá að segja upp þeim starfsmönnum sem þar vinna?

  Það stendur ekki til að leggja Húnavallaskóla niður. Lagt er til að Blönduskóli og Húnavallaskóli sameinist í nýjan skóla sem byggist á hefðum, þekkingu og reynslu beggja skóla. Samstarfsnefndin leggur áherslu á að nýr skóli taki mið af þörfum barna úr þéttbýli og dreifbýli.

  Það á eftir að útfæra hvernig að mögulegri sameiningu verður staðið, en lagt er til að sameinaður skóli starfi á tveimur stöðum fyrstu 1-2 skólaárin og sameinist á einn kennslustað á Blönduósi eigi síðar en 2024. Sameining skólanna verður unnin í samráði við starfsfólk og ekki stendur til að segja fólki upp. Eðlilegar breytingar í starfsmannahópnum, þ.e. þegar fólk hættir störfum, er hægt að nýta til að ná fram hagræðingu í skólastarfinu á næstu árum.

 • Ef það verður sameinað, er hægt að taka það til baka eftir einhvern tíma?

  Það eru ekki ákvæði í sveitarstjórnarlögum um að skipta sveitarfélögum upp. Það hefur þó verið gert og þá með sérlögum. Það hefur þó ekki verið stefna Alþingis undanfarna áratugi.

 • Hver verður staða íþróttafélaga og stjórnsýslu kringum þau ef að sameiningu verður?

  Sameining hefur ekki áhrif á stöðu íþróttafélaga. Í stjórnsýslu íþróttamála ætti að skapast svigrúm til meiri sérhæfingar, þannig að starfsmenn geti helgað sig íþrótta-og frístundamálum en sinni ekki mörgum öðrum verkefnum að auki.

 • Er tryggt að það komi að lágmarki einn í nýja sveitastjórn frá hverju sveitarfélagi?

  Það er ekki tryggt. Framboðslistar reyna yfirleitt að fá fulltrúa frá sem víðast á listana, en óvíst er um hvort það verði fulltrúi frá öllum svæðum.

 • Verður sama þjónustustig í öllu sveitarfélaginu?

  Þjónustustig verður líklega ekki það sama á öllum stöðum á öllum sviðum. Opnunartími íþróttamiðstöðva verður kannski mismunandi svo dæmi sé tekið. Þá geta gjaldskrár verið mismunandi í takt við þjónustustigið.

 • Hvað gerist ef ekki verður sameinað?

  Þá starfa sveitarfélögin fjögur áfram á sama hátt og áður. Stefna sveitarstjórnarráðherra um lágmarksviðmið um þjónustu og bolmagn sveitarfélaga gæti leitt til þess að sveitarfélögin þurfi að sameinast innan fárra ára. Rétt er að geta þess að ólíklegt er að áform um lágmarksíbúafjölda nái fram að ganga. 

 • Kemur til greina að aðsetur stjórnsýslunnar verði annars staðar en á Blönduósi. Til að mynda á Skagaströnd?

  Ný sveitarstjórn tekur ákvörðun um staðsetningu stjórnsýslunnar, en í framtíðarsýn samstarfsnefndar er gert ráð fyrir að stjórnsýslu- og fjármálasvið, þróunarsvið og hafnarmál hafi aðalstarfsstöð á Skagaströnd. Velferðarsvið, framkvæmdasvið, skipulags- og byggingafulltrúi og slökkviliðsstjóri hafi aðalstarfsstöð á Blönduósi.

 • Mun fólk í sveitarstjórn og nefndum fá greitt betur fyrir vinnu sína en raunin er í dag?

  Lagt er upp með að kjörnum fulltrúum fækki og vinnuálag aukist. Samhliða er gert ráð fyrir að laun hækki og þeim sem koma um langan veg verði sérstaklega umbunað.

 • Fasteignagjöld, verða þau óbreytt eða verður flatt gjald þvert yfir hið nýja sveitarfélag?

  Fasteignaskattar verða samræmdir. Önnur fasteignagjöld, eins og fráveitugjöld, gætu orðið mismunandi eftir því hvernig þjónustu er háttað. Miðað við fyrirliggjandi gjaldskrár er líklegt að fasteignaskattar á íbúðarhúsnæði hækki í Skagabyggð, en lítil áhrif verði í hinum sveitarfélögunum.

 • Hverjir mega kjósa í sameiningarkosningum?

  Sömu reglur gilda og þegar kosið er til sveitarstjórna. Íslenskir ríkisborgarar, 18 ára og eldri, sem eiga lögheimili í einu sveitarfélaganna sem um ræðir, eru sjálfráða og hafa kosningarétt. Ríkisborgarar Noregs, Danmerkur, Svíþjóðar og Finnlands, sem uppfylla áðurnefnd skilyrði, hafa kosningarétt ef þeir hafa átt lögheimili á Íslandi í þrjú ár samfleytt og ríkisborgarar annarra ríkja hafi þeir átt lögheimili á Íslandi í fimm ár samfleytt.

 • Hvernig mun sveitarfélagið beita sér fyrir því að fá „milli hópinn” heim? Fólk á aldrinum 20-50 ára.

  Ný sveitarstjórn verður að setja niður skýra stefnu, en nýsköpun og þróun í atvinnulífinu hljóta að vera þættir í þeirri viðleitni.

 • Hverjir mega kjósa í sameiningarkosningum?

  Sömu reglur gilda og þegar kosið er til sveitarstjórna. Íslenskir ríkisborgarar, 18 ára og eldri, sem eiga lögheimili í einu sveitarfélaganna sem um ræðir, eru sjálfráða og hafa kosningarétt. Ríkisborgarar Noregs, Danmerkur, Svíþjóðar og Finnlands, sem uppfylla áðurnefnd skilyrði, hafa kosningarétt ef þeir hafa átt lögheimili á Íslandi í þrjú ár samfleytt og ríkisborgarar annarra ríkja hafi þeir átt lögheimili á Íslandi í fimm ár samfleytt.

 • Mun þetta nýja sveitarfélag innleiða Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna í allar sínar stefnur?

  Ný sveitarstjórn tekur ákvörðun um það ef sameining verður samþykkt.

 • Hvað með hafnarstjórn? Hvernig verður þeim málum háttað?

  Í framtíðarsýninni er lagt til að það verði sérstök hafnarstjórn og hafnarstjóri með aðsetur á Skagaströnd.