Austur-Húnvetningar, nýtum kosningaréttinn á laugardaginn!

Loksins er komið að því að íbúar Austur-Húnavatnssýslu fá að kjósa um sameiningu sveitarfélaganna fjögurra í eitt sveitarfélag með um 1900 íbúa. Undirrituð hefur tekið þátt í undirbúningsferlinu og setið sem fulltrúi í samráðsnefndum frá upphafi, haustið 2017. Mikil vinna hefur átt sér stað á þessum tíma og gott samráð hefur verið haft við íbúana við mótun þeirrar tillögu sem kynnt hefur verið fyrir íbúunum. Það hefur verið ánægjulegt að finna áhuga íbúa og starfsmanna sveitarfélaganna sem hafa komið lausnamiðaðir að þessari vinnu með opnum huga. Afrakstur þessarar vinnu má finna á vefsíðunni hunvetningur.is og á Facebook síðunni Húnvetningur og hvet ég alla íbúa til að kynna sér það efni vel.

Fyrir um tuttugu árum síðan voru sveitarfélögin í A-Hún. tíu talsins, þrjár sameiningar urðu svo á fimm ára tímabili og margir litu á það sem skref í átt að stærri sameiningu seinna meir þar sem meirihluti íbúa voru ekki tilbúnir í stærri sameiningu að sinni. Nú er kominn tími á að taka næsta skref og sameina sveitarfélögin fjögur í eitt og hef ég trú á að meirihluti íbúanna sé tilbúinn í það enda er þetta eitt samfélag sem starfar mikið saman á flestum sviðum. Austur-Húnavatnssýsla liggur afar vel landfræðilega sem eitt sveitarfélag, samgöngur eru greiðar þar sem ekki þarf um fjallvegi að fara enda er þetta eitt atvinnusvæði, hér eru tveir þéttbýliskjarnar þar sem stór hluti íbúanna sækir vinnu. Við búum yfir miklum mannauði sem við þurfum að geta nýtt betur til sóknar, mannlífið er gott og grunnþjónusta er nokkuð góð en hana þarf að efla enn frekar svo sem þjónustu við börn, unglinga og eldri borgara, stór verkefni svo sem félags- og fræðsluþjónusta eru rekin í gegnum byggðasamlög í dag. Byggðasamlög eru í eðli sínu þung í vöfum og geta þar af leiðandi verið hamlandi eðlilegri framþróun. Við þurfum að sækja fram, efla samfélagið okkar, vegakerfið, fjölga atvinnutækifærum og gera það ákjósanlegt fyrir unga fólkið að snúa til baka/ velja sér búsetu hér, hvort heldur sem er í þéttbýli eða dreifbýli. Ég tel að við verðum mun öflugri og samhentari og munum ná betri árangri í þessum málum sem eitt sveitarfélag. Með sameinuðu sveitarfélagi höfum við sterkari rödd út á við, gagnvart ríkisvaldinu og einnig í samstarfi við önnur sveitarfélög svo sem innan SSNV (Samtaka sveitarfélaga á Nl. vestra) og erum fýsilegri kostur fyrir hvers kyns atvinnustarfsemi.

Það er afar mikilvægt að íbúar mæti á kjörstað laugardaginn 5. júní og greiði atkvæði um þessa sameiningartillögu til þess að niðurstöður kosninganna endurspegli vilja íbúanna með skýrum hætti og vil ég því hvetja alla íbúa til að nýta kosningaréttinn.

Undirrituð hefur setið í sveitarstjórn Húnavatnshrepps síðan 2010, þar af fjögur ár sem oddviti. Ég er einnig fjögurra barna móðir, amma, sjúkraliði og starfa á HSN Blönduósi ásamt því að reka sauðfjárbú í sveitinni með eiginmanni mínum.

Þóra Sverrisdóttir, fulltrúi í samstarfsnefnd