Framtíðin er ykkar Húnar

Mjög góð þátttaka var á íbúafundi um mögulega sameiningu Blönduósbæjar, Húnavatnshrepps, Skagabyggðar og Skagastrandar þann 3. mars. Á fundinn mættu um 100 þátttakendur, en ljóst er að við nokkrar tölvur voru fleiri en einn að taka þátt. Auk þeirra fylgdust rúmlega 100 með útsendingu á Facebooksíðunni “Húnvetningur”, þannig að fundurinn hefur náð til yfir 200 manns, eða um 14% af kosningabærum íbúum á svæðinu. Flestir voru að taka þátt í sínum fyrsta rafræna íbúafundi og kom fólki ánægjulega á óvart hve auðvelt er að taka þátt.

Elín Elísabet og Rán Flygenring myndlýstu fundinum og má sjá teikningar þeirra hér. Hér verður stiklað á stóru úr umræðum á íbúafundinum, en næsti fundur fer fram laugardaginn 6. mars kl. 10.

Að kynningum loknum var fundarfólki skipt í fjóra umræðuhópa, sem ræddu umræðuefnið út frá fjórum spurningum. Um 60 manns tóku þátt í umræðum. Kynningarefnið má nálgast hér.

  1. Hvernig líst þér á?
    1. Hvaða atriðum ertu sammála?
    2. Hvaða atriðum ertu ósammála?
  2. Hvaða tækifæri liggja í sameiningu sveitarfélaganna?
  3. Hvað ber að varast í sameiningarferlinu?
  4. Hvað viljum við varðveita?

Miklar umræður spunnust í hópunum og komu fram mjög gagnlegar upplýsingar fyrir mótun sameiningartillögunnar.

Flestum þátttakendum fundarins leist vel á þá vinnu sem starfshópar verkefnisins hafa unnið en hægt er að kynna sér minnisblöð starfshópanna hér á vefnum. Sitt sýndist hverjum um hvort kostir væru fleiri en gallar og komu fram þau sjónarmið að samstarf sveitarfélaganna geti verið betri lausn á áskorunum svæðisins, heldur en sameining.

Íbúar í Austur- Húnavatnssýslu telja að ein helsta áskorunin við mögulega sameiningu sveitarfélaganna sé að byggja upp traust og auka trú íbúanna á að hag þeirra verði betur borgið í sameinuðu sveitarfélagi. Að þjónusta nái til allra íbúa og að áhrif jaðarbyggða verði tryggð. Sameining sveitarfélaga geti ekki farið þannig fram að eitt sveitarfélag yfirtaki önnur.

Varað var við því að lofa of miklu í tengslum við mögulega sameiningu, eða halda því fram að allt verði óbreytt. Samfélagið er að þróast hratt hvort sem af sameiningu sveitarfélaganna verður eða ekki. Íbúar leggja áherslu á að einkenni , menning og mannlíf hvers samfélags verði varðveitt. Íbúar verða áfram Blönduósingar, Skagstrendingar og Vatnsdælingar svo dæmi sé tekið, þó þeir sameinist um að vera Húnvetningar.

Mikil umræða var um fræðslumál og áhersla lögð á að skólarnir haldi sínum sérkennum og geti veitt þjónustu í samræmi við þarfir á hverjum stað. Ein viðamesta breytingatillagan sem kynnt var á fundinum er möguleg sameining Blönduskóla og Húnavallaskóla og var eðli málsins samkvæmt mikil umræða um þá tillögu. Mikil áhersla var lögð á að sameining skóla, væri raunverulega sameining skóla en ekki yfirtaka stærri skóla á þeim minni. Afar mikilvægt er að vinna að verkefninu í samstarfi við starfsfólk og foreldra.

Tækifæri eru talin liggja í auknum slagkrafti svæðisins til atvinnuþróunar og hagsmunagæslu gagnvart ríkinu og Alþingi, sérstaklega í samgöngumálum. Væntingar eru um að sameiningarframlög hjálpi svæðinu að verða fjárhagslega sterkara og til að efla stjórnsýslu og þjónustu. Þá töldu þátttakendur mikil tækifæri felast í aukinni áherslu á umhverfis- og skipulagsmál og uppbyggingu á Húnavöllum.