Fundir með þingflokkum í apríl

Oddvitar sveitarstjórnanna fjögurra munu eiga fjarfundi með þingflokkum á Alþingi í apríl. Markmið fundanna er tvíþætt. Annars vegar að kynna verkefnið Húnvetningur fyrir þingmönnum og svara spurningum þeirra.  Meginmarkmiðið er hins vegar að kynna áherslur og helstu hagsmunamál Húnvetninga.

Húnvetningar leggja áherslu á að þingmenn styðji við brýn verkefni í atvinnu- og byggðamálum í Austur-Húnavatnssýslu. Svo sem stofnun Umhverfisakademíu, uppbyggingu ferðamannastaða, og fjölgun starfa við innheimtuþjónustu sýslumanns á Blönduósi og Vinnumálastofnunar á Skagaströnd.
Þá er brýnt að átak verði gert í viðhaldi héraðs- og tengivega með það fyrir augum að tryggja greiðar samgöngur innan nýs sveitarfélags, verði sameiningartillagan samþykkt.