Á laugardag verður gengið til kosninga um sameiningu Blönduósbæjar, Húnavatnshrepps, Skagabyggðar og Sveitarfélagsins Skagastrandar. Sameiningarviðræðurnar eiga sér töluverðan aðdraganda og byggja á farsælli samvinnu sveitarfélaganna í félagsþjónustu og fræðslumálum, tónlistarskóla, atvinnu- og menningarmálum, skipulagsmálum og brunavörnum. Hagsmunir svæðisins eru að miklu leyti sameiginlegir, menningin svipuð og atvinnulíf byggir á sömu grunnstoðum, matvælaframleiðslu og ferðaþjónustu.
Með vísan til þessa var ákveðið að hefja könnunarviðræður árið 2017 og í október 2020 samþykktu sveitarstjórnirnar að hefja formlegar sameiningarviðræður. Á laugardaginn munu íbúar ákveða hvort sveitarfélögin sameinast eða ekki.
Vinna við verkefnið hefur gengið vel. Samstarfið hefur verið gott og samskiptin hafa verið hreinskiptin og uppbyggileg. Samstarfsnefndin hefur ekki alltaf verið sammála, en öll mál hafa verið til lykta leitt og góð samstaða er um helstu hagsmunamál svæðisins. Fimm starfshópar voru skipaðir um ýmsa málaflokka og haldnir voru íbúafundir í öllum sveitarfélögum til að ná fram hugmyndum íbúa. Á fimmta tug íbúa og starfsfólks tók þátt í vinnu starfshópa og rúmlega 100 íbúar mættu til samráðsfunda í mars.
Niðurstaða starfshópa, íbúafunda og vinnu samstarfsnefndarinnar eru m.a.:
Allar nánari upplýsingar má finna á heimasíðu verkefnisins, hunvetningur.is. Síðustu vikur hefur samstarfsnefndin staðið fyrir kynningu svo íbúar geti myndað sér skoðun fyrir laugardaginn kemur. Upptökur, spurningar íbúa og svör samstarfsnefndar eru á heimasíðunni.
Samstaða sveitarfélaganna fjögurra er þegar farin að skila sér í auknum slagkrafti. Oddvitar og sveitarstjórar hafa átt fundi með öllum þingflokkum til að kynna hagsmunamál svæðisins. Auk þess hafa mennta- og menningarmálaráðherra og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra komið í heimsókn, og fundað hefur verið rafrænt með samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Verkefninu er hvergi nærri lokið. Það þarf að fylgja verkefnum eftir og tryggja að þau klárist með nýjum þingmönnum og ríkisstjórn. Hver svo sem niðurstaðan verður á laugardaginn, þá eru helstu hagsmunamál sveitarfélaganna komin betur á dagskrá, samstaða sveitarfélaganna er meiri og íbúar hafa tekið umræðu um þau mál sem brenna á samfélaginu. Við stöndum sterkar saman.
Við hvetjum alla til að mæta á kjörstað á laugardaginn, eða greiða atkvæði utan kjörfundar. Mikilvægt er að þátttaka verði góð og niðurstaðan skýr.
Jón Gíslason, oddviti Húnavatnshrepps og formaður samstarfsnefndar
Dagný Úlfarsdóttir, oddviti Skagabyggðar
Guðmundur Haukur Jakobsson, oddviti Blönduósbæjar
Halldór G. Ólafsson, oddviti Sveitarfélagsins Skagastrandar