Kosið um sameiningu Húnavatnshrepps og Blönduósbæjar í dag

Í dag er kosið um sameiningu Blönduósbæjar og Húnavatnshrepps. Á Blönduósi er kosið í Íþróttamiðstöðinni á milli klukkan 10:00 og 20:00 og í Húnavatnshreppi er kosið í Húnavallaskóla á milli klukkan 11:00-20:00. Talning atkvæða fer fram á hvorum kjörstað fyrir sig og hefst eftir að kjörstöðum lokar. Úrslit verða birt hér á síðunni og á vefsvæðum Blönduósbæjar og Húnavatnshrepps.

Samkvæmt ákvörðun Alþingis þann 28. desember sl. fara kosningar fram samkvæmt lögum um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998 og lögum um kosningar til Alþingis nr. 24/2000, en ekki samkvæmt kosningalögum nr. 112/2021 sem tóku gildi 1. janúar 2022. Samkvæmt þeim eiga kosningarétt allir íbúar sveitarfélaganna með íslenskan ríkisborgararétt sem náð hafa 18 ára aldri á kjördag, norrænir ríkiborgarar sem átt hafa lögheimili á Íslandi í þrjú ár samfleytt og aðrir erlendir ríkisborgarar sem átt hafa lögheimili á landinu í fimm ár samfellt.

Íbúar eru eindregið hvattir til að mæta á kjörstað og nýta kosningaréttinn.