Sameining rökrétt framhald mikillar samvinnu

Það dregur til tíðinda 5. júní næstkomandi þegar Austur -Húnvetningar kjósa um hvort sameina skuli Húnavatnshrepp, Blönduósbæ, Skagabyggð og Sveitarfélagið Skagaströnd. Sveitarfélögin hafa haft umtalsverða samvinnu í stórum málaflokkum svo sem félags- og skólaþjónustu, tónlistarskóla og menningar- og atvinnumálum í langan tíma ásamt málefnum fatlaðra og urðun sorps í samstarfi á stærra svæði og brunavörnum í tvennu lagi á svæðinu.

Sameining stjórnsýslu í A-Hún er því að mínu mati ekki stórt skref að stíga, frekar eðlilegt framhald af mikilli samvinnu og liður í þróun sem er að eiga sér stað í stækkun stjórnsýslueininga á sveitarstjórnarstiginu með það að leiðarljósi að efla samfélagið á svæðinu til sóknar í atvinnu og byggðamálum. Það eru hins vegar ýmsir aðrir hlutir í svona sameiningu sem óhjákvæmilega breytast verulega. Það að börn úr dreifbýlinu í Húnavatnshreppi fari að sækja skóla á Blönduósi og fulltrúar þéttbýlis og dreifbýlis í sveitarstjórn sameinaðs sveitarfélags fari að hlutast til um fjallskil og fjármuni til þeirra úr sameiginlegum sjóðum er auðvitað mikil breyting sem mjög mikilvægt er að takist vel til með. Að sama skapi er það mikil breyting að fulltrúar alls svæðisins í sveitarstjórn sameinaðs sveitarfélags hafi með hafnarmál á Skagaströnd að gera, svo dæmi sé tekið.

Það er gott að staldra við og skoða þessar sameiningarhugmyndir út frá íbúum í Húnavatnshreppi og bera þær saman við sameiningu sveitahreppanna hérna í Húnavatnshrepp á sínum tíma, sem ég tók fullan þátt í sem hreppsnefndarmaður í Svínavatnshreppi og starfaði í sameiningarnefndinni þá.

Þá snérist sameiningin um að sameinast um Húnavallaskóla og styrkingu innviða dreifbýlisins. Meirihluti Svínhreppinga var þá tilbúinn að deila tekjustofnum af Blönduvirkjun til eflingar dreifbýlisins í innsveitum Austur-Húnavatnssýslu.

Ég tel að sú sameining hafi verið mikið gæfuspor sem skapaði grundvöll fyrir þeim framkvæmdum sem Húnavatnshreppur hefur staðið fyrir í sveitunum. Svo sem að ljúka gerð fráveitu, lýsingu heimreiða og lagningu ljósleiðara á öllum bæjum, miklum endurbótum og nýframkvæmdum á réttarmannvirkjum, gangnamannaskálum og girðingum þó svo þar þurfi að taka til hendi áfram og síðast en ekki síst miklum endurbótum á fasteignum og umhverfi þeirra á Húnavöllum.

Í mínum huga var sú sameining alltaf áfangi í því að sameina alla sýsluna og núna erum við að mínu mati komin á þann stað.

Öll sveitarfélögin glíma við fólksfækkun, sauðfjárrækt á undir högg að sækja sem kallar á aukna þörf á nýjum atvinnutækifærum á svæðinu. Það bráðvantar fleiri stoðir undir atvinnulífið, það þarf aukna samstöðu til að berjast fyrir samgöngubótum sem er forsenda þess að blómleg byggð haldist í sveitunum og það þarf markvissar aðgerðir til markaðssetja Austur -Húnavatnssýslu sem sem áhugavert svæði fyrir komandi kynslóðir .

Það er hugur í fólki hér að taka til hendi, mynda umhverfisvænt samfélag, ferðaþjónusta er að eflast, uppbygging sögu og útivistarsvæða er í gangi, Norður-strandar verkefnið á eftir að efla svæðið, samstaða er um að berjast fyrir að nýta orku Blönduvirkjunar á svæðinu, fasteignir á Húnavöllum hafa fengið mikið viðhald og eru tilbúnar til að taka við nýjum atvinnutækifærum inn á svæðið. Það er kominn nýr kraftur í uppbyggingu á Blönduósi, bæði í byggingu íbúða og atvinnuhúsnæðis og það eru miklar hugmyndir um uppbyggingu ferðaþjónustu og innviða á Skagaströnd.

Við höfum nú lagt í mikla vinnu við greiningu á möguleikum Austur-Húnavatnssýslu sem eins sveitarfélags og að mínu mati liggja í því sóknarfæri sem við megum ekki missa frá okkur og því skora ég á alla íbúa á svæðinu að kynna sér þær forsendur sem settar hafa verið fram af samstarfsnefndinni fyrir sameiningarkosningarnar og skoða þær með framtíð og mögulega þróun samfélagsins í Austur-Húnavatnssýslu í huga með eða án sameiningar.

Jón Gíslason oddviti Húnavatnshrepps og formaður samstarfsnefndar.