Sameiningarhugleiðing á sauðburðarvaktinni

Hér sem ég sit með fartölvuna í fjárhúsunum og fylgist með 17-771 bera seinna lambinu langar mig að segja frá því þegar ég fluttist í Húnavatnssýslu. Ég og sambýlismaður minn keyptum jörðina Víkur á Skaga haustið 2016 og tókum við sauðfjárbúskapnum þar. Skömmu áður en ég var kosin í sveitarstjórn vorið 2018 komst ég að því að við byggjum í sveitarfélaginu Skagabyggð. Eftir kosningar fékk ég skilaboð með hamingjuóskum og mér tilkynnt að ég hefði verið kjörin. Ekki hafði mig órað fyrir því að ég 22 ára með rúmlega 5 mánaða gamlan frumburð okkar færi að starfa sem sveitarstjórnarfulltrúi, hafandi ekki hundsvit á sveitarstjórnarmálum né sérstakan áhuga á þeim. Ég get þó viðurkennt að þetta er ekki alveg eins slæmt og ég hélt. Samt sem áður tel ég að betra væri fyrir íbúa og sveitarfélag að hafa sveitarstjórnarfulltrúa sem virkilega hefur brennandi áhuga á málefnunum. Því þó allir geri sitt besta er það besta betra hjá þeim sem virkilega hefur áhugann en hjá þeim sem upplifir starfið sem hálfgerða kvöð.

Það er mín tilfinning að í Skagabyggð sé raunar mjög lítill áhugi á að starfa í sveitarstjórn, enda ekki mikið um að vera þannig lagað. Sumir þeirra sem helst ekki vilja starfa í sveitarstjórn vilja heldur ekki sameinast sem mér þykir pínu sérstakt. Á að halda áfarm að kjósa fólk í sveitarstjórn sem hefur ekki áhuga?

Nú líður senn að kosningum hjá Austur Húnvetningum um sameiningu sveitarfélaganna fjögurra sem þar eru. Sitt sýnist hverjum um sameiningu. Eðlilega hugsa íbúar í því samhengi um hvort sameining sé þeim í hag eða ekki. Mér finnst engu að síður mikilvægt að fólk horfi á hlutina í víðara samhengi. Við sem íbúar Skagabyggðar njótum góðs af því ef þéttbýlisstaðirnir og sveitirnar í kringum okkur eflast. Sjálf er ég mjög hrifin af þeirri sýn að sameinast öll og snúa vörn í sókn og vinna að fjölgun starfa á svæðinu sem hefur glímt við stöðnun undanfarið. Þó svo sannarlega hafi verið unnið í því að reyna að styrkja hér byggðina hefur það ekki borið eins góðan árangur og óskandi væri. Þykir þér, kæri lesandi líklegt að það breytist ef sveitarfélögin haldast óbreytt?

Í sveitarfélögunum fjórum eru sveitarstjórar og oddvitar önnum kafnir við að sinna lögbundnum verkefnum sveitarfélaganna og því takmarkaður tími og fjármunir í sóknarvinnu. Í sameinuðu sveitarfélagi ætti að vera meira svigrúm til að leggja ríkari áherslu á slíkt.

Bent hefur verið á að í stærra sveitarfélagi séu einnig meiri líkur á að geta myndað flokkspólitíska lista í stað þeirra óháðu sem hafa verið í framboði í þremur af sveitarfélögunum. Með þeim hætti sé auðveldara að ná röddum flokka á þingi og fá hljómgrunn og meðbyr með framgangi héraðsins.

Íbúar á jaðarsvæðum eru hugsanlega uggandi yfir því, að þjónusta við þá skerðist, en engar hugmyndir hafa verið uppi um slíkt. Þvert á móti þykir mér líklegra að stærra sveitarfélag sé betur í stakk búið til að þjónusta íbúa með fjölbreyttum hætti.

Að lokum er mikilvægast af öllu að íbúar kynni sér málið vel svo þeir geti tekið upplýsta ákvörðun um hvort þeir vilji sjá sameiningu eða ekki og hvet ég alla til að nýta kosningarrétt sinn. Einnig minni ég á kynningarfundi á Húnavöllum 31. maí og í Skagabúð 1. júní ásamt upplýsingum á hunvetningur.is.

Karen Helga R Steinsdóttir, leiðbeinandi á leikskólanum Barnabóli, sveitarstjórnarfulltrúi og sauðfjárbóndi í Víkum á Skaga.