Sameiningarkosningar fara fram 5. júní

Sveitarstjórnir Blönduósbæjar, Húnavatnshrepps, Skagabyggðar og Sveitarfélagsins Skagastrandar hafa samþykkt að atkvæðagreiðsla fari fram 5. júní 2021 og falið samstarfsnefnd að undirbúa atkvæðagreiðslu og kynna tillöguna og helstu forsendur fyrir íbúum.

Sveitarstjórnirnar hafa lýst því yfir að þær muni ekki nýta heimild í 2. mgr. í 120. gr. sveitarstjórnarlaga, komi til þess að sameiningartillaga verði samþykkt af íbúum í hluta sveitarfélaganna, nema að undangengnu samráði við íbúa. Það felur í sér að ef íbúar í einu sveitarfélagi fella tillöguna munu aðrar sveitarstjórnir eiga aftur samráð við íbúa áður en tekin verður ákvörðun um hvort þau þrjú sveitarfélög sameinist. 

Sveitarstjórnirnar telja brýnt að fylgt verði þeim áherslum sem fram hafa komið á fundum samstarfsnefndar með þingmönnum og ráðherrum varðandi brýn verkefni í atvinnu- og byggðamálum í Austur-Húnavatnssýslu. Svo sem stuðningi við stofnun Umhverfisakademíu, uppbyggingu ferðamannastaða, og fjölgun starfa við innheimtuþjónustu sýslumanns á Blönduósi og Vinnumálastofnunar á Skagaströnd.

Þá er að mati sveitarstjórnanna mikilvægt að átak verði gert í viðhaldi héraðs- og tengivega með það fyrir augum að tryggja greiðar samgöngur innan nýs sveitarfélags.

Atkvæðagreiðsla um tillögu um sameiningu sveitarfélaganna fer fram laugardaginn 5. júní 2021 í öllum sveitarfélögunum.