Samstarfsnefnd fundar með ráðamönnum

Meðal þess sem samstarfsnefnd um sameiningu Blönduósbæjar og Húnavatnshrepps hefur tekið sér fyrir hendur í sameiningarviðræðunum er að kortleggja helstu hagsmunamál sveitarfélaganna tveggja og koma upplýsingum um þau á framfæri við ráðherra og þingmenn kjördæmisins. Sameiningarviðræðurnar vekja athygli meðal ráðamanna, og það mikilvægt að nýta þá athygli og vekja athygli á hagsmunamálum íbúa. Það er jafnframt mikilvægt að halda áfram að berjast fyrir þeim hagsmunum að kosningum loknum, hvernig sem kosningarnar fara.

Í janúar fundaði samstarfsnefnd með ráðherra umhverfis-, orku- og loftslagsmálaráðherra, innanríkisráðherra, innviðaráðherra og mennta- og barnamálaráðherra. Af því tilefni tók nefndin saman minnisblöð um þau mál sem nefndin telur mikilvægust fyrir samfélagið og sem afhent voru ráðherrum. Minnisblöðin verða einnig afhent þingmönnum kjördæmisins á fundum þeirra með sveitarstjórnarmönnum í næstu viku. Samstarfsnefnd hefur verið mætt með jákvæðni og á fundum með ráðherrum hefur komið fram að þau verkefni sem samstarfsnefnd hefur sett í forgang samræmast í grundvallaratriðum stefnu ríkisstjórnarinnar í samgöngu og byggðamálum.

Þau hagsmunamál sem talin eru upp í minnisblöðunum varða bættar vegasamgöngur, bundið slitlag á Blönduósflugvöll, aukna heilbrigðisþjónustu, bætta innviði fyrir orkuflutninga innan svæðisins, umhverfisakademíu á Húnavöllum og fjölgun starfa á vegum Sýslumannsins á Norðurlandi vestra á Blönduósi. Sérstakt minnisblað var ritað til að vekja athygli á nauðsyn þess að byggja upp vegina í Blöndudal og Svartárdal með bundnu slitlagi áður en þungaflutningar vegna uppbyggingar Blöndulínu 3 og vindmyllugarðs í Blöndulundi hefjast.