Skýrsla starfshóps um Umhverfisakademíu á Húnavöllum

Á fundi samstarfsnefndar í gær var lagt fram skilabréf og skýrsla starfshóps um stofnun uhverfisakademíu á Húnavöllum, sem er þróunarverkefni sem unnið hefur verið að samhliða viðræðum um sameiningu Blöndósbæjar og Húnavatnshrepps. Starfshópurinn telur hugmynd um umhverfisakademíu fýsilegan kost fyrir sameinað sveitarfélag Húnavatnshrepps og Blönduósbæjar til að ráðast í og leggur til að stefnt verði að upphafi skólastarfs haustið 2023.

„Hugmyndin byggir í grunninn á því mati að það sé í raun enginn skóli á Íslandi sem marki sér þá sérstöðu að vera umhverfisfræðsluskóli þótt víða sé hægt að finna greinar á sviði umhverfisfræða í námskrám háskólanna. Að því leyti sé þarna sennilega eyða í menntakerfinu sem hægt væri að fylla í með sérstökum umhverfisskóla. Einnig var horft til þess að til staðar er góð aðstaða á Húnavöllum því húsnæði þar er orðið of stórt fyrir núverandi skólahald og stefnt að því að grunnskólinn á Húnavöllum og Blönduskóli verði sameinaðir“.

Það er mat starfshópsins að húsnæði að Húnavöllum geti hentað mjög vel fyrir starfsemi lýðskóla  með samnýtingu við bæði Hótel Húna og verkefnið „Sól í sveit“, sem lýtur að uppsetningu aðstöðu til námskeiðahald tengdu textíl. Starfshópurinn leggur til að stofnað verði einkahlutafélag um rekstur Umhverfisakademíunnar í eigu Húnavatnshrepps og Blönduósbæjar, eða sameinaðs sveitarfélags ef af sameiningu verður, og skipuð stjórn í félaginu sem hafi það hlutverk að vera skólastjórn. Stjórnin fái einnig það verkefni að stilla upp skipulagsskrá fyrir skólann, tryggja fjárhagslegar forsendur skólastarfsins og ráða skólastjóra til að leiða starfið og uppbyggingu skólans. 

Í skýrslunni er lagt til að gerðir verði samningar við sveitarfélagið um afnot af skólahúsnæði og við Hótel Húna um gistirými fyrir nemendur og aðra aðstöðu utan skólastarfsins. Einnig verði gengið til samninga við helstu samstarfsaðila þ.m.t. menntamálastofnun um staðfestingu á starfsemi og menntamálaráðuneyti um árlega fjármögnun Umhverfisakademíunnar. 

Í starfshópnum sátu Einar K. Jónsson, formaður, Magdalena Berglind Björnsdóttir, Unnur Valbor g Hilmarsdóttir og Magnús B. Jónsson.

Skýrsla starfshóps um stofnun umhverfisakademíu að Húnavöllum