Veigamikil stefnubreyting í uppbyggingu ferðamannastaða

Frá heimsókn Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur í Austur Húnavatnssýslu í september. Myndin er…
Frá heimsókn Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur í Austur Húnavatnssýslu í september. Myndin er tekin á Þrístöpum.

Á íbúafundunum sem haldnir hafa verið undanfarnar vikur til að kynna stöðugreiningu, framtíðarsýn og tillögur samstarfsnefndar, hefur nokkuð verið spurt um það hvaða árangur hafi náðst í því að koma hagsmunamálum Austur Húnavatnssýslu á dagskrá hjá stjórnvöldum. Oddvitar og sveitarstjórar hafa hitta alla þingflokka á Alþingi og átt fundi með ráðherrum í ríkisstjórn.

Samstarfsnefnd hafa á undanförnum dögum borist viðbrögð Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Sigurðar Inga Jóhannssonar samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við umleitunum á fundum sem fulltrúar nefndarinnar áttu með þeim. Bæði hafa þau sýnt málefnum svæðisins áhuga og skilning.

Þórdísar Kolbrún segir meðal annars:

„Á fundi okkar á Blönduósi var m.a. rætt um nauðsyn þess að Framkvæmdasjóður ferðamannastaða tæki aukið tillit til „kaldra svæða“ í ferðaþjónustu. Í því sambandi vil ég nefna að við síðustu breytingu á lögum um Framkvæmdasjóðinn var markmiðsákvæði þeirra breytt á þann veg að sjóðurinn skuli stuðla að jafnari dreifingu ferðamanna um landið. Ég mun í kjölfar fundar okkar leggja áherslu á það við stjórn sjóðsins að tekið verði tillit til þessara breytinga með skýrum og afgerandi hætti við næstu úthlutun úr sjóðnum“.

Í þessu felst veigamikil stefnubreyting því framlög úr sjóðnum hafa hingað til að stórum hluta farið til verkefna þar sem ágangur ferðamanna er mestur til að mæta þörf fyrir uppbyggingu staða sem þegar eru eftirsóttir. Stefnubreytingin er meðal annars til komin vegna hagsmunabaráttu samstarfsnefndar.

Í yfirlýsingunni segir einnig:

„Varðandi raforkumál er það skýrt forgangsmál stjórnvalda að tryggja fullnægjandi aðgengi að raforku bæði til almennra notenda og til atvinnuuppbyggingar. Áherslur Húnvetnings í þessum efnum eru í góðu samræmi við áætlanir Landsnets. Í 10 ára kerfisáætlun Landsnets er gert ráð fyrir samfelldri tengingu af nýjum 220 kV línum alla leið frá Hvalfirði austur á Fljótsdalshérað. Tvær þeirra eru nú þegar í byggingu. Á þarnæsta ári er áætlað að hefja byggingu á þeirri þriðju (frá Akureyri að Blöndu), sem mun skv. upplýsingum ráðuneytisins gagnast þeim markmiðum sem nefndar eru í minnisblaði Húnvetnings. Árið þar á eftir hefjist svo bygging nýrrar línu á milli Holtavörðuheiðar og Blöndu. Með tilkomu þessara nýju lína mun nýting núverandi virkjana og vatnasvæða aukast til muna, og einnig mun núverandi 132 kV byggðalína fá nýtt hlutverk og þjóna fyrst og fremst sem fæðing inn á svæðisbundnu flutningskerfin og sem tenging við nýja notendur. Afhendingargeta mun því aukast til muna, til hagsbóta fyrir atvinnulíf og byggðaþróun“.

Í yfirlýsingu samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra eru talin upp eftirfarandi framkvæmdaverkefni í sýslunni sem þegar hafa verið sett á samgönguáætlun 2021-2026:

Vegur

Vegalengd

Kostnaður

Skagastrandarvegur/Þverárfjallsvegur

16,3 km

2.100 m.kr.

Svínvetningabraut

6,2 km

340 m.kr.

Vatnsdalsvegur

8,5 km

870 m.kr.

Reykjastrandavegur

5,6 km

320 m.kr.

Vatnsnesvegur (3 verkefni)

8 km

370 m.kr.

Samtals

44,6 km

4.000 m.kr.

Í yfirlýsingunni segir einnig:

„Skagavegur og Þingeyrarvegur hafa ekki enn ratað inn á næstu ára áætlun. Við sameiningu mun þrýstingur aukast og líkur vaxa á að þeir komist á áætlun. Árin 2021 og 2022 eru 2.5 milljarðar áætlaðir til tengivega -á landsvísu - en aðeins 950 milljónir 2023 og um 1200 milljónir 2024-5. Alls um 8,6 milljarðar næstu 5 ár. Næsta ríkisstjórn mun þurfa að fylgja eftir átaki þessara ára í uppbyggingu tengivega og þar með aukast möguleikar og tækifæri að setja fé í ofannefnda vegi“.

Í yfirlýsingu ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra kemur fram að ráðuneytið hafi m.a. stuðst við minnisblað Húnvetnings við gerð um sagnar um byggðaáætlun sem er í samráðsferli í samráðsgátt stjórnvalda. Viðleitni samstarfsnefndar til að ná áheyrn ráðherra og þingmanna sýnir að vel er hægt að koma hagsmunamálum íbúa Austur Húnavatnssýslu á dagskrá með góðri eftirfylgni og samstöðu.