Viðræður hafnar á milli Blönduósbæjar og Húnavatnshrepps

Sveitarstjórnir Húnavatnshrepps og Blönduósbæjar hafa samþykkt að skipa samstarfsnefnd sem kanna skal möguleika á sameiningu sveitarfélaganna skv. 119. grein sveitarstórnarlaga. Nefndin hefur þegar hafið störf og fundað tvisvar. Hvor sveitarstórn á þrjá fulltrúa í nefndinni, en auk þeirra eiga sveitarstjórar sveitarfélaganna tveggja seturétt á fundum nefndarinnar með málfrelsi og tillögurétt. Samið hefur verið við RR ráðgjöf um verkefnisstjórn og rágjöf.

Í bókunum sveitarstjórnanna tveggja kemur fram að stefnt skuli að kosningum um tillögu um sameiningu í janúar árið 2022, en í ljósi þess að ný kosningalög taka gildi um áramót hefur samstarfsnefnd ákveðið að miða við að kynning tillögunnar hefjist í janúar og að kosið verði í febrúar.

Fulltrúar Blönduósbæjar í samstarfsnefnd eru Guðmund Haukur Jakobsson, Jón Örn Stefánsson og Arnrún Bára Finnsdóttir, en fultrúar Húnavatnshrepps eru Jón Gíslason, Ragnhildur Haraldsdóttir og Þóra Sverrisdóttir.

Vefsvæðið hunvetningur.is verður áfram notað til að koma upplýsingum um verkefnið á framfæri en viðmót þess og innihald aðlagað breyttu aðstæðum. Margt af því efni sem varð til í sameiningarviðræðum Blönduósbæjar, Húnavatnshrepps, Skagabyggðar og Sveitarfélagsins Skagastrandar verður áfram aðgengilegt á vefsvæðinu.