Fréttir

Hvað gerist ef íbúar í einu sveitarfélagi fella sameiningartillöguna?

Á íbúafundum komu fram spurningar um hvað gerist ef íbúar í einu sveitarfélagi fella sameiningartillöguna. Á fundi samstarfsnefndar 8. mars var fjallað um þann möguleika.

Stöðnun er ekki valkostur

Þátttakendur á fundinum voru sammála um að á næstu misserum verða breytingar í stjórnsýslu, atvinnulífi og þjónustu á svæðinu hvort sem af sameiningu sveitarfélaganna verður eða ekki. Spurningin sem íbúar standa frammi fyrir er hvort betra sé fyrir samfélagið að takast á við þær breytingar í einu sveitarfélagi eða fjórum. Stöðnun er ekki valkostur.

Streymi frá íbúafundi um sameiningarverkefnið Húnvetningur

Á Facebook síðunni Húnvetningur er streymi á íbúafundinn sem hófst kl. 10

Íbúafundur í fyrramálið

Í fyrramálið kl. 10 fer fram seinni íbúafundur um sameiningarviðræður sveitarfélaganna. Mjög góð þátttaka var á fundinum á miðvikudagskvöldið og nú gefst þeim sem misstu af fundinum tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri.

Framtíðin er ykkar Húnar

Mjög góð þátttaka var á íbúafundi um mögulega sameiningu Blönduósbæjar, Húnavatnshrepps, Skagabyggðar og Skagastrandar þann 3. mars. Á fundinn mættu um 100 þátttakendur, en ljóst er að við nokkrar tölvur voru fleiri en einn að taka þátt. Auk þeirra fylgdust rúmlega 100 með útsendingu á Facebooksíðunni “Húnvetningur”, þannig að fundurinn hefur náð til yfir 200 manns, eða um 14% af kosningabærum íbúum á svæðinu. Flestir voru að taka þátt í sínum fyrsta rafræna íbúafundi og kom fólki ánægjulega á óvart hve auðvelt er að taka þátt.

Streymi frá íbúafundi um sameiningarverkefnið Húnvetningur

Hér er hægt að nálgast slóð inn á streymi frá fundinum.

Íbúafundir um sameiningarviðræður 3. og 6. mars

Rafrænir íbúafundir verða haldnir í gegnum Zoom-fjarfundakerfið miðvikudaginn 3. mars kl. 20:00-23:00 og laugardaginn 6. mars kl. 10:00-13:00. Fundunum verður einnig streymt á netinu og upptökur af kynningum verða gerðar aðgengilegar á vef verkefnisins að þeim loknum.

Minnisblöð starfshópa eru komin á vefinn.

Starfshópar Húvetnings hafa skilað af sér minnisblöðum þar sem lagt er mat á stöðu málaflokka, áskoranir og tækifæri. Minnisblöðin er að finna á síðu hvers starfshóps fyrir sig á undir "Starfshópar" efst á síðunni. Íbúar eru hvattir til að kynna sér niðurstöðurnar í minnisblöðunum.

Jón Örn tekur sæti Birnu í samstarfsnefndinni

Þann 12. janúar baðst Birna Ágústsdóttir lausnar frá störfum í sveitarstjórn Blönduósbæjar og nefndum á vegum sveitarfélagsins. Við sæti Birnu í sveitarstjórn tók Jón Örn Stefánsson og tók hann jafnframt sæti hennar í samstarfnefnd. 

Samstarfsnefnd um sameiningu fullskipuð

Sveitarstjórnir Húnavatnshrepps og Skagabyggðar hafa samþykkt tillögu sameiningarnefndar Austur-Húnavatnssýslu um að um að sveitarfélögin fjögur í sýslunni hefji formlegar sameiningarviðræður og skipi tvo fulltrúa hvert sveitarfélag og tvo til vara í samstarfsnefnd. Húnavatnshreppur hefur skipað Jón Gíslason og Ragnhildi Haraldsdóttur í samstarfsnefndina og Jóhönnu Magnúsdóttur og Þóru Margréti Lúthersdóttur til vara. Skagabyggð hefur skipað Karenu Steinsdóttur og Magnús Björnsson í samstarfsnefndina.