Markmið og skipulag

Mynd sem sýnir svæðið sem sveitarfélögin tvö ná yfir.

Sveitarstjórnir Blönduósbæjar og Húnavatnshrepps hafa skipað samstarfsnefnd til að kanna hvaða áhrif sameining sveitarfélaganna myndi hafa á rekstur og þjónustu sveitarfélaganna samkvæmt 119. grein Sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011

Í samstarfsnefnd sitja þrír fulltrúar hvorrar sveitarstjórnar, auk framkvæmdastjóra sveitarfélaganna. Formaður samstarfsnefndar er Jón Gíslason, oddviti sveitarstjórnar Húnavatnshrepps. Hópurinn hefur samið við RR ráðgjöf um að stýra verkefninu og leiða vinnu við greiningar.

Samstarfsnefnd mun leita svara við ýmsum spurningum varðandi áhrif mögulegrar sameiningar á fjármál, rekstur, stjórnsýslu og þjónustu við íbúa svæðisins til að meta hvort hag íbúanna er betur borgið í sameinuðu sveitarfélagi en í núverandi skipulagi. 

Gert er ráð fyrir að kosið verði um sameiningu sveitarfélaganna í febrúar 2022.

Ákvörðun um sameiningarviðræður sveitarfélaganna tveggja var tekin í kjölfar þess að tillaga um sameiningu sveitarfélaganna fjögurra í Austur Húnavatnssýslu var samþykkt í Blönduósbæ og Húnavatnshreppi en felld í Skagabyggð og Sveitarfélaginu Skagaströnd í kosningum 5. júní 2021.